135. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2008.

prófessorsembætti á sviði byggðasafna og byggðafræða.

220. mál
[17:54]
Hlusta

Flm. (Árni Johnsen) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um prófessorsembætti á sviði byggðasafna og byggðafræða. Flutningsmenn auk mín eru hv. þingmenn Suðurkjördæmis, Bjarni Harðarson, Lúðvík Bergvinsson, Guðni Ágústsson, Grétar Mar Jónsson, Björk Guðjónsdóttir, Kjartan Ólafsson og Atli Gíslason.

Í tillögugreininni er lögð áhersla á það að Alþingi álykti að fela menntamálaráðherra að hlutast til um að Háskóli Íslands stofni til prófessorsembættis á sviði byggðasafna og byggðafræða sem verði tengt Byggðasafninu á Skógum undir Eyjafjöllum.

Mikilvægi byggðasafna á Íslandi er óumdeilt. Þau eru allt í senn, menningarsöfn, sögusöfn og verkfærasöfn. Þau eru spegilmynd lífsins í landinu. Það segir í gömlu máltæki að það sem þú segir mér, því gleymi ég en það sem þú sýnir mér muni ég. Byggðasafnið tryggir skilvirkni hvors tveggja.

Byggðasöfnin eru mikilvæg fyrir þekkingu landsmanna á lífinu í landinu í gegnum tíðina, þróun búsetu, lífsháttum og öllu sem lýtur að mannlegu samfélagi Íslendinga. Það skiptir miklu að þau séu sett upp af alúð og tillitssemi og af mikilli vandvirkni, með metnað í huga og glöggar upplýsingar.

Byggðasöfnin eru mikilvæg að svo mörgu leyti. Þau eru snar þáttur í ferðaþjónustu nútímans og erlendir ferðamenn sækja þau heim í sífellt meiri mæli. Það er líka aukning á því að ungviði Íslands sæki söfnin heim og læri um sögu landsins, lífið í landinu og kynnist þar mörgu er lýtur að góðum hefðum í sögu Íslendinga. Vönduðustu söfn landsins í þessum efnum eru á heimsmælikvarða og það er mikilvægt fyrir framtíðina að hlúa að uppbyggingu þeirra með eins skilvirkum hætti og kostur er og nýta til þess nútímatækni hverju sinni í bland við safngripina sjálfa.

Byggðasafnið í Skógum er eitt öflugasta byggðasafn landsins. Það nýtur þess að hafa byggst upp undir forustu Þórðar Tómassonar, einhvers mesta safnamanns Íslandssögunnar, sem sinnti því af fádæma ósérhlífni og krafti, og þess að hafa byggst upp í nánum tengslum við grasrótina í landinu, fólkið sjálft í starfi og leik.

Við höfum ákveðna grunnkjarna, Íslendingar, sem við þurfum að rækta og hlúa að, er lýtur að sögu okkar og menningu, sjálfstæði. Við höfum Íslendingasögurnar, við höfum tunguna, við höfum söfn landsins og söfn landsins hafa setið nokkuð hjá, að mínu mati, í því að hafa eðlilegan aðgang og framgang í því stjórnkerfi sem við ræktum upp og styrkjum fjárhagslega til margra góðra verka í landinu.

Það er mikilvægt að leggja á það áherslu að unnið sé úr gögnum sem eru til staðar í byggðasöfnum landsins, gífurlega viðamiklum gögnum sem eru til oft á lausum blöðum eða í bókum þar sem ekki er sérstakt skipulag á. Gott dæmi um slík gögn er auðvitað vinnusafn Þórðar Tómassonar í Skógum sem er gríðarlega mikið að vöxtum og geymir ómældan fróðleik og upplýsingar sem skipta máli fyrir framtíð okkar og virðingu fyrir fortíðinni.

Það er ósk mín, virðulegi forseti, að tillögunni verði vísað til menntamálanefndar að lokinni fyrri umræðu.