135. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2008.

prófessorsembætti kennt við Jónas Hallgrímsson.

221. mál
[18:11]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa þingsályktunartillögu sem inniheldur fyrst og fremst góðan hug til íslenskrar tungu og Jónasar okkar Hallgrímssonar. En eins og allir vita þá var Dagur íslenskrar tungu að mörgu leyti til tileinkaður honum en ekki eingöngu tungunni, þegar við höfum það í huga að dagur íslenskrar tungu er 16. nóvember ár hvert.

Ég vil hins vegar vekja athygli á því, sem er í samræmi við þau andsvör sem ég hef farið í fyrr í dag, að það er ekki lengur löggjafans eða Alþingis sem slíks að hlutast til um einstök verkefni, hvort sem það eru verkefni eða prófessorsstöður innan háskólastofnana. Háskólastofnanir hafa lögum samkvæmt frelsi til að móta sér stefnu varðandi hvaða prófessorsembætti eru til staðar, hvað þau heita og á hvaða sviðum. Ég undirstrika að háskólarnir hafa slíkt frelsi og ég tel mikilvægt að þessi þingsályktunartillaga berist Háskóla Íslands þannig að skólinn geti tekið efnislega afstöðu til hennar og veitt Jónasi þá sæmd sem hann á svo miklu meira en skilda, sem mundi um leið undirstrika mikilvægi tungunnar.

Ég vek einnig athygli á því sem gert hefur verið gert á undanförnum missirum, ekki síst með tilkomu nýrra laga um Stofnun Árna Magnússonar. Við styrkjum stöðu íslenskunnar og íslenskrar tungu með þeirri löggjöf, með sameiningu íslenskustofnananna fimm. Hlutverk Íslenskrar málnefndar er styrkt miðað við það sem var áður. Henni er ætlað að álykta um stöðu íslenskrar tungu. Íslensk málnefnd hefur efnt til fundaraða og við munum á haustdögum geta kynnt þá málstefnu sem ég hef lýst yfir að ég muni óska eftir umræðum um í þinginu, um stöðu íslenskrar (Forseti hringir.) tungu.