135. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2008.

prófessorsembætti kennt við Jónas Hallgrímsson.

221. mál
[18:20]
Hlusta

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Mig langar að blanda mér aðeins inn í þessa umræðu um þingsályktunartillögu um prófessorsembætti kennt við Jónas Hallgrímsson og taka undir það með hv. þm. Árna Johnsen að íslenskan er auðvitað mál okkar allra. Ég held að það sé almennur skilningur okkar í þinginu og í þjóðfélaginu öllu að til þess að íslenskan haldi áfram að vaxa og dafna þá verðum við að tala um hana, við verðum að halda merki hennar á lofti og það höfum við gert núna að undanförnu með ýmsum hætti. Við ræddum það í haust t.d. hvort ástæða væri til að gefa íslenskunni í raun og veru þann sess sem hún á skilið í stjórnarskránni. Við höfum, eins og fram kom hjá hæstv. menntamálaráðherra, rætt stöðu málnefndar og það mikilvæga starf sem þar er í gangi. Ég hef verið svo heppin að vera í ágætu sambandi við Íslenska málnefnd í vetur vegna þess að þar eru menn fljótir að skynja áhuga fólks á íslenskunni og miðla þá upplýsingum eins og þeir geta og það er alveg augljóst að nefndin og starfsfólk Íslenskrar málnefndar er afskaplega ánægt með það hvernig stjórnvöld hafa tekið frumkvæði í málum íslenskrar tungu. Ég held að sú vinna sem nú er í gangi eigi eftir að skipta miklu máli þegar við höldum áfram við það hvernig við eigum að þróa tunguna áfram og hugsa vel um hana.

Varðandi Jónas Hallgrímsson sem er, býst ég við, flestum Íslendingum hjartkær og kannski er það rétt hjá hv. þm. Árna Johnsen að við mættum kannski læra meira af ljóðunum hans utan bókar. Auðvitað þróast kennsluefnið með tímanum en það er náttúrlega hlutverk okkar foreldra líka að kynna ljóðin og íslenskar sögur fyrir börnunum, að lesa fyrir þau og segja þeim sögur og jafnvel þó að maður muni ekki alltaf næst hvað maður hafi sagt deginum á undan. Allt er þetta þýðingarmikið. Ég held samt, þó að sum okkar sakni gömlu Skólaljóðanna , að við eigum líka að huga að því að það sem börnin læra í dag í skólanum er gott og íslenskan fær meiri athygli, finnst mér og ég held að það sé skoðun foreldra, með hverju árinu.

Ég er alveg sannfærð um að sú ákvörðun sem tekin var fyrir nokkrum árum í tíð Sjálfstæðisflokksins í menntamálaráðuneytinu að helga ákveðinn dag íslenskri tungu og velja þá fæðingardag Jónasar Hallgrímssonar var afar þýðingarmikil og merkileg. Ég man ekki betur og ég held að það liggi alveg fyrir að í upphafi áttuðu menn sig engan veginn á því hversu mikilvægt þetta yrði og hversu mikilvægur þessi dagur hefur síðan orðið fyrir börnin og skólana. Ég held að þetta komi mörgum mjög á óvart. Ég held að við sjáum það öll á þeim börnum sem við þekkjum að þessi dagur skiptir máli og það er alltaf eitthvað skemmtilegt að gerast í skólanum og þau vita um Jónas. Ég veit ekki hvort þau vita eins mikið um Stephan G. Stephansson svo ég taki hann sem dæmi. Auðvitað þurfum við að passa svolítið upp á gömlu þjóðskáldin okkar og líka yngri skáldin sem við erum að ala upp og halda þessu að börnunum.

Íslenskudeild Háskóla Íslands er merkileg deild að mínu viti og ég er sammála því sem fram hefur komið að hún er grunnstoðin í háskólanum, við hljótum að viðurkenna það, af því að þar er verið að kenna íslensku og miðaldafræði og vegna þess að miðaldafræðin er kennd víðar um veröld, viljum við að íslenskudeildin sé í fararbroddi þar og að þeir vísindamenn og fræðimenn sem þar starfa séu þeir bestu í heimi.

Þegar þessi þingsályktunartillaga kom fram í haust var eftir henni tekið í háskólanum og um hana var rætt og þótti mörgum íslenskumanninum gaman að þingmenn skyldu líta með þessum hætti til Jónasar Hallgrímssonar. Og ég held að það verði gaman fyrir skólana að velta því fyrir sér hvort það sé einhver flötur á því að beina sjónum meira að Jónasi Hallgrímssyni, t.d. með þeirri hvatningu sem þarna kemur fram. Raunar var það svo, og það kom mér alveg á óvart, að ég fékk sjálf viðbrögð víðar af landinu og líka frá háskólum sem ekki kenna íslensku en mér fannst það áhugavert samt sem áður að menn skyldu segja: Af hverju nefnið þið Háskóla Íslands? Það er náttúrlega augljóst af hverju við gerum það, við gerum það vegna þess að þar er íslenskukennslan og þar er vagga íslenskunnar í háskólasamfélaginu. Aðrir skólar geta auðvitað líka hugsað meira um íslenskuna í sinni kennslu, þeir geta gert það með ýmsum hætti. Núna er verið að tala um að nauðsynlegt sé að kenna meira á ensku, við verðum mikið vör við það, sérstaklega í viðskiptaskólunum og ég get nefnt Háskólann í Reykjavík sem dæmi og Bifröst. Ég þori ekki að fara með hvernig það er í þeim skólum sem eru kannski starfstengdari á sumum sviðum, eins og þeir sem kenna landbúnaðarfræði og slíka hluti, en það er alveg klárt mál að erlend tunga hefur sótt mjög á í kennslu. Ég vil líka horfa til þess, þegar við tölum um íslenskuna og hvatningu til háskólanna um það hvernig þeir eigi að snúa sér í því, að segja þá líka við skólana að það sé ekkert síður þeirra hlutverk að passa upp á það í sinni kennslu að þeir nemar sem þeir útskrifa hafi vald á íslenskri tungu. Ég held að fæst okkar mundum sætta okkur við að svo verði að enskan eða eitthvert annað tungumál laumi sér inn í háskólakerfið með einhverjum þeim hætti sem við kærum okkur ekki um. Það er nefnilega gamall sannleikur og nýr að enginn verður góður málamaður sem ekki kann sitt móðurmál, við skulum hafa það hugfast. Við getum ekki farið víða um heim og talað fjálglega á erlendum málum ef við höfum ekki skilning á okkar eigin tungu, það er eitthvað sem ég held að við eigum alltaf að hafa í huga.

Að öðru leyti vil ég taka undir allt gott sem kemur íslenskunni við og hvet þingheim til þess að hugsa og tala áfram um íslensku, ég tala nú ekki um á íslensku.