135. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2008.

stofnun háskólaseturs á Akranesi.

344. mál
[19:13]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Hér er til umræðu tillaga til þingsályktunar sem er endurflutt. Það skýrir nú kannski margt af því sem er í greinargerðinni að þetta mál hefur verið flutt nokkrum sinnum. Besta mál sem þarf auðvitað að skoða.

Markmiðin í tillögunni eru klárlega sameiginleg markmið Samfylkingarinnar og Vinstri grænna og raunar allra flokka um þessar mundir, um að reyna að bæta aðgengi að menntun, færa hana sem næst þeim sem vilja njóta hennar og hækka menntunarstig almennt í landinu. Þetta hefur birst í málflutningi hæstv. ráðherra og raunar í stefnuplöggum og nú síðast í kjarasamningum koma fram áhersluatriði um menntun og því ber að fagna.

Það má síðan alltaf ræða með hvaða hætti slík mál eigi að bera að og hvernig standa eigi að þeim hvað varðar hvert svæði. Ég tek undir það með málshefjanda að skólinn á Akranesi, Fjölbrautaskóli Vesturlands á Akranesi, hefur verið öflugur iðn- og verkmenntaskóli. Það er eðlilegt að horfa til þeirra þátta þegar litið er til framhaldsnáms og þar hefur stundum vantað á. Menn bjuggu til þær reglur, bæði varðandi reiknilíkan og aðrar áherslur varðandi móðurskóla í framhaldsskólum landsins, að töluvert af iðn- og verknáminu færðist af Akranesi vegna þess að kröfurnar voru þannig og fjárveitingar til skólanna að ekki var hægt að kenna iðn- og verkgreinar. Jafnvel þó stutt sé til Reykjavíkur með tilkomu Hvalfjarðarganganna er það býsna langt að sækja daglega skóla á annað svæði, hvort sem það er í Borgarholtsskóla eða aðra skóla á höfuðborgarsvæðinu.

Það er því klárt og eðlilegt markmið að við reynum að bæta stöðu þessara greina innan fjölbrautaskólans. Það hefur vakið furðu mína varðandi þennan málflutning að hv. málshefjandi, Jón Bjarnason, skuli ekki einu sinni vitna í tillögu sem bæjarfulltrúi Vinstri grænna á Akranesi flutti, um að skoða stöðu iðn- og verknáms í skólanum á Akranesi. Sú vinna er enn í gangi. Það vekur jafnframt furðu mína að ekki skuli koma fram að í vaxtarsamningi Vesturlands er kafli um menntun þar sem einmitt er rætt um möguleika framhaldsskólans og mikilvægi tengingar við stóriðjuna á Grundartanga og hugsanlega uppbyggingu á framhaldsnámi, sérhæfingu og háskólanámi í tengslum við það. Sú vinna er í gangi. Ég fékk upplýsingar rétt áðan um að þar að auki hefðu skólameistarar Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi, raunar í samráði við bæjaryfirvöld, verið í viðræðum við Háskólann í Reykjavík, um að gegna hlutverki hvað varðar háskólanám.

Þannig að allt þetta er í gangi nú þegar og ný framhaldsskólalög, sem liggja fyrir þinginu og verða vonandi afgreidd á þessu þingi, gera ráð fyrir því að með auknum sveigjanleika á milli skólastiga verði hægt að kenna háskólaeiningar og -áfanga í framhaldsskólanum. Þá reynir á hugmyndaauðgi og gott samstarf við háskóla að þeirri kennslu verði komið á þannig að hægt sé að sinna þessu námi heima í héraði.

Ég nefni þetta hér einfaldlega vegna þess að ég tel mikilvægt að allir þessir þættir verði leiddir saman í eina fylkingu. Hvort sem það mun heita háskólasetur eða bera eitthvert annað heiti eða verði hreinlega undir verksviði Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi er mikilvægt að menn reyni að leiða alla aðila saman og skilgreini hvaða þætti háskólanáms verði hægt að bjóða upp á á Akranesi og í framhaldi komi þá tillögur um það.

Í sjálfu sér þarf ekkert að útiloka þingsályktunartillöguna þó að hún hefði þurft mikla uppfærslu eins og hún er lögð fram hér. Menn þurfa að gefa sér ákveðinn tíma til að skilgreina og skoða með hvaða hætti hægt er að auka þessa þjónustu á Vesturlandi. Ég fagna því þeim áherslum sem fram koma í tillögunni og harma að hún skuli ekki hafa verið uppfærð og skoðuð. Í framhaldinu hefðum við þurft að búa til hagsmunahópa á Akranesi í samstarfi við bæði ríki og sveitarfélög um að byggja þessa þjónustu á þessum sérsviðum, iðn- og verkmenntun, á Akranesi. Því ljóst er að Fjölbrautaskóli Vesturlands á að geta annað töluvert meiru en hann gerir í dag. Nýir framhaldsskólar hafa verið stofnaðir á svæðinu, sem er vel, bæði í Grundarfirði og nú í Borgarbyggð. Hvorugur þeirra skóla er með iðnnám og því verður sú þörf brýnni að halda á Vesturlandi þeirri góðu hefð sem hefur verið í tengslum við iðnnám í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi.

Málið fer vonandi til menntamálanefndar og kannski tekst okkur í framhaldi af því að vinna upp tillögu eða tryggja með einhverjum hætti að aðilar sameinist um að beina þeim áformum og þeim hugmyndum sem hafa verið uppi í einn farveg svo að við náum sem bestum árangri.