135. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2008.

mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar.

[13:48]
Hlusta

Huld Aðalbjarnardóttir (F):

Virðulegi forseti. Það kemur mér í sjálfu sér ekki á óvart að ekki sé mikið nýtt í pípunum hérna en vissulega eru það vonbrigði. Talað var um að haft hefði verið mikið samráð, m.a. við sveitarfélög. Sveitarstjórnarmenn sem ég hef talað við, af því svæði sem ég kem frá, kannast ekki við það samráð.

Mér finnst að mótvægisaðgerðir eigi að vera veruleg viðbót við annars eðlilega þróun í landinu. Uppbyggingu samgangna, fjarskipta og fleira höfðu allir flokkar á stefnuskrá sinni fyrir kosningar. Við þurfum eitthvað meira. Það er ekki hægt að bíða lengur. Við þurfum að fá skýra stefnu. Við þurfum að sjá að eitthvað sé í farvatninu þannig að eitthvað verði gert.

Kallað var eftir tillögum og mig langar að benda á þær tillögur sem við framsóknarmenn höfum lagt til. Ef hugmyndir vantar er ágætt að leita í þann banka. En mig langar að enda á því að hafa eftir orð Aðalsteins Baldurssonar, sem er verkalýðsfrömuðurinn okkar. Hann segir, með leyfi forseta: „Þessar mótvægisaðgerðir hitta ekki það fólk sem er að missa vinnuna.“