135. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2008.

mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar.

[13:54]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég held að árétta þurfi að vandinn er miklu víðtækari en menn vilja vera láta. Hann er ekki tímabundinn. Það er verið að skapa varanlegan vanda. Það mat liggur fyrir að störfin sem munu tapast við sjávarútveg við niðurskurðinn tapast varanlega þannig að þegar kvótinn eykst á nýjan leik mun störfunum ekki fjölga aftur að sama skapi ef þá nokkuð. Því þarf að grípa til aðgerða í atvinnumálum fyrst og fremst til að skapa störf í öðrum atvinnugreinum til mótvægis við þau störf sem hafa tapast. Til viðbótar niðurskurði í þorski hafa rækjuveiðar og rækjuvinnsla hrunið á síðustu árum. Við það störfuðu hundruð manna, bæði á sjó og í landi. Ekkert hefur komið í staðinn fyrir þetta. Menn verða að gá að því að þegar verið er að tala um mótvægisaðgerðir, fyrir utan samgönguframkvæmdir sem þegar voru áformaðar, sem eru um 4 milljarðar kr., eða um 1,5 milljarður kr. á ári, þá er það innan við 10% af samdrættinum í atvinnumálum á hverju ári. Mest af þeim 10% fer í að verja fjárhagsstöðu sveitarfélaganna, sem er út af fyrir sig ágætt og við höfum ekkert á móti því, en sáralitlar fjárhæðir fara í atvinnumál.

Settar eru 150 millj. kr., minnir mig, til nýsköpunar í ferðaþjónustu. Byggðastofnun er að auglýsa eftir umsóknum um 100 millj. kr. í atvinnumálum. Þetta er ekki neitt. Lítið á álverið á Austfjörðum þar sem verið er að skapa 400 störf með framkvæmd upp á liðlega 200 milljarða kr. Ef við tökum með afleidd störf þá kostar hvert starf um 200 millj. kr., hvert eitt starf. Boðnar eru fram 250 millj. kr. á móti þúsund störfum sem eru að tapast úr sjávarútvegi um þessar mundir. Í atvinnumálum þarf ekki 100 millj. kr. heldur 10 þúsund milljónir, virðulegi forseti.