135. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2008.

hækkandi áburðarverð og framleiðsla köfnunarefnisáburðar.

354. mál
[14:04]
Hlusta

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir að bera upp þessar spurningar um mál sem er afar alvarlegt og er full ástæða til að við ræðum.

Hv. þingmaður spyr fyrst hvernig ráðherra hyggist bregðast við áhrifum hækkandi áburðarverðs á framleiðslukostnað landbúnaðarvara og verð á þeim til neytenda.

Eins og hv. fyrirspyrjanda er örugglega kunnugt er frjáls verðlagning á áburði hér á landi og þess vegna ekki hlutverk ráðherra í sjálfu sér að hlutast til um verðlagninguna sjálfa. Hins vegar er ástæða til að hafa miklar áhyggjur af hækkun áburðarverðs því að hún kemur illa við bæði bændur og neytendur, mun óhjákvæmilega leiða til hækkunar afurðaverðs og kann að hafa áhrif á eftirspurn eftir landbúnaðarvörum.

Það er talið að áburðarverð muni hækka um allt að 70% nú á milli ára og þá lætur nærri að það hafi tvöfaldast á tveimur árum. Lauslega áætlað má gera ráð fyrir að áburðarverðshækkunin nú auki framleiðslukostnað mjólkur um 3–4 kr. á lítra og lambakjöts um 60–70 kr. á kíló. Hækkunin vegur einnig þungt í garðyrkju og sé landgræðslustarfið talið með má ætla að kostnaðarauki af verðhækkuninni alls nemi nú vel yfir 1 milljarði kr. Þessi áburðarverðshækkun á ekki að hafa verri eða meiri áhrif á framleiðslukostnað búvöru hér á landi en í löndunum í kringum okkur en er engu að síður mjög alvarleg.

Hv. þingmaður spyr enn fremur: Mun ráðherra láta kanna ástæður fyrir þeim mikla mun sem er á áburðarverði hér á landi og í nágrannalöndunum, t.d. Noregi?

Mér er ekki kunnugt um hvort áburðarverð hér sé nú hærra en í nágrannalöndunum, t.d. í Noregi. Ég vek þó athygli á því að í nýlegum fréttum — ég hygg að það hafi verið í Bændablaðinu — kom fram að í Noregi reikna menn með því að þurfa að hækka áburðarverðið mjög verulega þegar líður á sumarið. Þar voru sérstakar aðstæður uppi.

Ég bendi hins vegar á að hér er um að ræða almenna hækkun á heimsmarkaðsverði sem kemur til með að hækka áburð, ekki bara hér á landi heldur alls staðar í löndunum í kringum okkur og um heim allan. Verðlagsnefnd búvöru kemur saman núna í dag til að ræða þessa stöðu. Í henni sitja fulltrúar bænda, afurðastöðva og verkalýðshreyfingar auk formanns sem er skrifstofustjóri í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. Hann hefur tjáð mér að nefndin muni greina þessar hækkanir og þá væntanlega með tilliti til þess hvort þær eru í takt við þróunina í kringum okkur.

Hv. þingmaður spyr síðan: Mun ráðherra beita sér fyrir athugun á hagkvæmni þess að hefja köfnunarefnisvinnslu og áburðarframleiðslu að nýju hér á landi í ljósi hinna miklu verðhækkana á áburði?

Ég held við Íslendingar þurfum að vera stöðugt og vel á verði með viðskiptatækifæri okkar. Ég er fyrir mitt leyti tilbúinn til þess að taka þátt í slíkri könnun sem hv. þingmaður spyr um í samvinnu við hagsmunaaðila og viðskiptalífið. Eðlilegast er að sjálfsögðu að frumkvæði að þessu komi frá atvinnulífinu sjálfu enda yrði rekstur slíkrar verksmiðju væntanlega á forræði fyrirtækja í eigu einstaklinga eða samtaka þeirra.

Að lokum spyr hv. þingmaður: Mun ráðherra beita sér fyrir átaki til að efla lífræna ræktun til mótvægis við hækkandi verð á innfluttum áburði?

Ef verð á tilbúnum áburði kemur til með að verða viðvarandi hátt, sem ég óttast raunar, gæti það og ýtt undir þróun í lífrænni ræktun hér á landi. Ég bendi á að í núverandi búnaðarlagasamningi er gert ráð fyrir sérstökum stuðningi við endurræktun túna, akra, garða, landa og gróðurhúsa vegna aðlögunar að lífrænum búskap. Þetta er vissulega ekki há upphæð á ári hverju, og hlýtur að koma til athugunar við endurskoðun búnaðarlagasamningsins núna í vetur hvort rétt sé að bæta þar eitthvað í. Þá er sérstakur stuðningur við ráðgjafarþjónustu við lífrænan, vistvænan búskap og landnýtingu.