135. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2008.

hækkandi áburðarverð og framleiðsla köfnunarefnisáburðar.

354. mál
[14:10]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og þakka hæstv. ráðherra fyrir þær undirtektir og áherslur sem ráðherrann leggur á alvöru þessa máls. Ég leyfi mér að víkja að því hversu mikilvægt það er að við stöndum vörð um matvælaöryggi okkar alveg eins og aðrar þjóðir gera. Styrkur okkar er að vera með blómlegan og öflugan landbúnað, einmitt í þeim efnum. Ekki síst ef um breytingar er að ræða sem eru fyrirsjáanlegar á alþjóðlegum matvælamörkuðum er gríðarlega mikilvægt að hér sé eins öflug matvælaframleiðsla og nokkur kostur er. Íslenskur landbúnaður er þannig séð „hagvernd“ okkar eins og formaður Bændasamtakanna komst að orði.

Ég tel að það eigi að kanna allar leiðir, hagkvæmni stofnunar byggingar áburðarverksmiðju þess vegna. Ég legg áherslu á að aðgerðir og tillögur í þessum efnum mega ekki dragast. Bændur og landbúnaðurinn hafa ekki þol til að taka beint á sig þessar gríðarlegu verðhækkanir sem nú eru að hlaðast upp á flestum sviðum aðfanga.

Þess vegna hvet ég hæstv. ráðherra til að gera eins og allar þjóðir, eða flestar þjóðir, nágrannaþjóðir okkar, eru að gera. Þær eru núna að kanna hvernig þær geti slegið skjaldborg um matvælaframleiðslu sína, innlenda matvælaframleiðslu, um landbúnaðinn sinn í því umróti sem greinilega er fram undan í hækkun á áburðarverði, í hækkun á olíu o.s.frv. Ég leyfi mér að árétta enn frekar að hér má ekki sofa á (Forseti hringir.) verðinum. Hér þarf að grípa strax til aðgerða og ég skora á hæstv. ráðherra að bregðast við.