135. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2008.

hækkandi áburðarverð og framleiðsla köfnunarefnisáburðar.

354. mál
[14:13]
Hlusta

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessar jákvæðu og málefnalegu umræður sem hafa farið fram um þetta alvarlega mál. Ég held að ekki sé ástæða til að gera á nokkurn hátt lítið úr alvöru málsins. Eins og ég nefndi í svari mínu mun sú hækkun sem ég vísaði til væntanlega hafa þau áhrif að framleiðslukostnaður á mjólk eykst um 3–4 kr. og framleiðslukostnaður á dilkakjöti um 60–70 kr. á kíló.

Þetta eru gríðarlega miklar stærðir og munu hafa mikil áhrif. Það er alveg ljóst mál að þetta verður ekki einkamál bænda eða framleiðenda. Þetta er mál sem varðar okkur öll.

Ég hef þegar rætt við forsvarsmenn bænda um þessi mál og þeir hafa gert mér grein fyrir því eins og þau blasa við þeim. Ég veit að forsvarsmenn bænda hafa sömuleiðis rætt við sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd Alþingis til að fara yfir þessi mál þar.

Ég tel að það hafi verið mjög heppilegt að verðlagsnefnd landbúnaðarvara ákvað að taka þetta mál upp að sínu eigin frumkvæði. Þar sitja fulltrúar bænda. Þar sitja fulltrúar framleiðenda og þar sitja fulltrúar neytenda, þ.e. fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar, sem hafa þess vegna alla möguleika á að átta sig á því um hvað þetta mál snýst.

Ég ætla ekkert að segja hvaða áhrif þetta hefur að öðru leyti. Auðvitað getum við ekki á þessari stundu áttað okkur á því hvort eitthvað sé hægt að gera til að afstýra þessari hækkun. Hún er alvarleg. Hún mun hafa mikil áhrif. Við vitum að mjög margt er að gerast í þessum verðlagsmálum matvæla víða um heiminn sem trúlegast verður þó til þess að styrkja samkeppnislega stöðu innlendrar matvælaframleiðslu þrátt fyrir allt. Engu að síður er staðan alvarleg hvað varðar hækkun bæði á áburði og fóðri og ýmsum öðrum aðföngum eins og olíu, eins og hv. þm. Steingrímur Sigfússon nefndi hér áðan. Þetta er nokkuð sem menn verða þá einfaldlega að hafa í huga og gera sér grein fyrir.