135. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2008.

samgöngur á sjó til og frá Vestmannaeyjum.

378. mál
[14:17]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Eins og hv. þm. Hanna Birna Jóhannsdóttir las upp þá beindi hún til mín fyrirspurn um hvernig menn skuli bæta samgöngur á sjó til og frá Vestmannaeyjum þar til Bakkafjöruhöfn verði tilbúin.

Því er til að svara, virðulegi forseti, að frá árinu 2006 hafa ferðir með ms. Herjólfi, milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar, verið tvær á dag auk fastra næturferða, svokallaðrar þriðju ferðar, í kringum þjóðhátíð og stórmót.

Á árinu 2007 var næturferðum fjölgað um fimm og á þessu ári verður þeim fjölgað um 20 ferðir til viðbótar. Áætlunarferðir ferjunnar eru ekki fullnýttar nema í kringum stórviðburði, þjóðhátíð og sumar helgar á sumrin. Því er ekki þannig þörf á fleiri ferðum nema í kringum framangreinda daga og viðburði.

Sú fjölgun sem ríkisstjórnin samþykkti á síðasta ári, um 20 ferðir á þessu ári, er talin geta fullnægt þörfum þar til Bakkafjara verður tilbúin enda næturferðir ekki almennt taldar eftirsóknarverðar fyrir farþega.

Virðulegi forseti. Ég vil bæta því við að þótt hér sér talað um samgöngur á sjó til og frá Vestmannaeyjum þá eru annars konar samgöngur líka, þ.e. flug. Því ber að geta þess líka að ríkisstjórnin ákvað á síðastliðnu sumri að bæta við þriðju flugferðinni, í fjóra mánuði yfir sumarmánuðina, sem ég hygg að verði gott og nýtist vel.

Síðan hefur líka, sem kemur innan skamms til þingsins en öllum er kunnugt um vegna samþykktar fjárlaga, framkvæmdum við tengiveg að Bakkafjöruhöfn verið hraðað og 650 millj. kr. koma í samgönguáætlun til að gera veginn frá hafnarsvæðinu upp að Markarfljóti ásamt varnargörðum sem þar eru. Þetta er talið kosta í kringum 650 millj. kr.

Af því hér var minnst á Herjólf og hvenær hann verði tilbúinn að sigla upp að Bakkafjöru þá hafa menn byrjað að vinna að Bakkafjöruhöfn og renna hvorki meira né minna en 3.100 millj. kr. næstu þrjú árin til að gera það. Ég tel að þeir þingmenn og aðrir frambjóðendur sem töluðu um það fyrir kosningar að bæta samgöngur til Eyja, a.m.k. heyri ég það frá félögum mínum úr stjórnarflokkunum sem eru þingmenn Suðurlandskjördæmis, hafi betur fylgt eftir málum og allir þeir áfangasigrar náðst sem ég hef gert að umtalsefni.

Þó er alltaf eitthvað sem gera mætti betur. Sitt sýnist hverjum um hvernig skuli farið að en við förum ekki í þá umræðu núna. Það er rétt sem hv. þingmaður sagði: Þakka skal það sem gert hefur verið. Ég hygg að töluvert mikið hafi verið gert á tíma þessarar ríkisstjórnar, þ.e. það sem ég hef talið upp varðandi flugið, fjölgun ferða Herjólfs, veginn að Bakkafjöruhöfn, byggingu hafnarinnar og útboð á Herjólfi sem opnað verður 1. eða 2. apríl á þessu ári.