135. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2008.

samgöngur á sjó til og frá Vestmannaeyjum.

378. mál
[14:24]
Hlusta

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir að vekja máls á þessu máli. Samgöngur milli lands og Eyja eru aftarlega á merinni, aftast á merinni miðað við landið í heild. Það er miður því Vestmannaeyjar eru þriðji fjölfarnasti ferðamannastaður á Íslandi. Um 200 þúsund manns ferðast milli lands og Eyja á hverju ári. Ekki einvörðungu Vestmannaeyingar, heldur mikið af öðrum Íslendingum og erlendum gestum. Þetta er mergurinn málsins.

Það er búið að taka ákvörðun um Landeyjahöfn. Við skulum vona að það gangi vel. Það verður áfram unnið að gerð jarðganga á milli lands og Eyja. Það er framtíðin og ætti að vera nútíðin, en er framtíðin í dag. Fjölga þarf flugferðum enn meira en gert hefur verið. Það gengur ekki að hafa tvær ferðir milli lands og Eyja á dag, eina að morgni og eina að kvöldi. Það er bara svo einfalt. Það vantar milliferð að minnsta kosti árið um kring og fleiri ferðir yfir sumartímann. Nú þegar þarf (Forseti hringir.) nýrra skip fyrir Herjólf til að brúa bilið þangað til Landeyjahöfn verður tekin í notkun.