135. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2008.

flug milli Vestmannaeyja og lands.

355. mál
[14:37]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir þá fyrirspurn sem hér var sett fram og þingmönnum sem tóku þátt í umræðunni. Eins og ég sagði áðan eru samgönguumræður hér alltaf spennandi og skemmtilegar og sitt sýnist hverjum. Mér er auðvitað kunnugt um það sem hv. þm. Bjarni Harðarson nefndi hér. Fulltrúar Flugfélags Vestmannaeyja hafa gengið á minn fund og lýst áhyggjum sínum út af samkeppnisstöðu og hvað gerist þegar nýr Herjólfur kemur í gagnið og annað slíkt. Þetta er nú einu sinni sá raunveruleiki sem er.

Við vitum að meðan flogið var til Eyja á minni vélum þá var einhvern veginn eins og það væri minna notað og hef stundum haft á orði að t.d. Siglfirðingar sem voru vanir litlum flugvélum hafi ekki kippt sér upp við að fara í þær. En þeir sem hafa verið í stærri flugvélum eins og Vestmannaeyingar voru í áður fyrr, Fokker, voru kannski ekki alveg tilbúnir að sætta sig við litla 19 sæta Dornier flugvél. Þess vegna var flugvélakosturinn stækkaður í útboðsskyldunni sem gerð var. Þar voru sett skilyrði um ákveðinn sætafjölda sem gerði það að verkum að menn fengu tilboð frá Flugfélaginu í Fokker eða Dash-vélarnar sem komnar eru síðan og auðvitað skekkir þetta samkeppnisstöðu.

Það er allt í lagi að segja frá því, virðulegi forseti, að ég hef líka heyrt athugasemdir frá Eimskipsmönnum um að siglingar Herjólfs hafi verið boðnar út og þá var ekki ríkisstyrkt flug, þannig að sitt sýnist hverjum í þessu.

Ég ætla ekki að fara út í að ræða rekstur flugfélaga við hv. þm. Árna Johnsen. Það er eitthvað sem við förum ekki inn í en auðvitað höfum við sem notum flugið oft orðið fyrir því þegar flug tefst á einum stað, vél teppist eða eitthvað annað tefur, að þá raskast áætlanir dagsins. Það er örugglega þannig í rekstri flugfélaga að menn þurfa að vera duglegir við að setja flugvélar á og fá fulla nýtingu en þetta er ókosturinn að stundum getur það raskast.

Ég held að ég hafi svarað fullkomlega því sem var í fyrirspurninni og öðru sem hefur komið fram og ég tek ég undir það (Forseti hringir.) með hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni að auðvitað verða ríkisstyrktar samgöngur við samfélag eins og Vestmannaeyjar, enda full heimild fyrir því samkvæmt Evrópusamþykkt.