135. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2008.

líffæragjafar.

380. mál
[14:45]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir hefur beint til mín fyrirspurn um líffæragjafa. Í fyrsta lagi spyr þingmaðurinn:

„Hve margir eru líffæragjafar hér á landi sé miðað við fjölda útgefinna líffæragjafakorta?“

Því er til að svara að fjöldi útgefinna líffæragjafakorta er ekki þekktur. Á vegum landlæknisembættisins hefur um mjög langt skeið verið staðið fyrir útgáfu korta sem einstaklingar geta fyllt út og gengið með á sér og á þann hátt geta þeir upplýst um afstöðu sína til líffæragjafa. Einstaklingur getur ýmist heimilað að líffæri hans séu nýtt til líffæragjafar, hann getur einnig undanskilið ákveðin líffæri og hann getur lýst því yfir að hann heimili ekki líffæragjöf.

Eins og ég gat um áður hafa líffæragjafakort verið gefin út til fjölda ára. Þau fylgja fræðslubæklingi um líffæragjöf og getur einstaklingurinn fjarlægt kort af einni síðu bæklingsins, fyllt í upplýsingar um eigin vilja og undirritað. Fjöldi slíkra korta er ekki þekktur og hvergi skráður. Þau geta týnst eða slitnað þannig að sá heildarfjöldi sem einstaklingar ganga með á sér er ekki þekktur.

Í öðru lagi spyr hv. þingmaður:

„Hafa kortin lagalegt gildi? Er ættingjum t.d. skylt að hlíta vilja líffæragjafa?“

Því er til að svara að þessi kort lýsa einungis almennum vilja þess sem hefur undirritað kortið. Getur þessi viljayfirlýsing gert eftirlifandi ættingjum hægara um vik að taka ákvörðun á örlagastundu en lagalegt gildi þeirra er ekki bindandi á nokkurn hátt.

Til almennra upplýsinga er mér ljúft að nefna nokkur dæmi um stöðu líffæraígræðslna hér á landi. Fram til síðustu áramóta höfðu alls 10 einstaklingar fengið 11 hjartaígræðslur, 24 einstaklingar fengið 26 lifrarígræðslur og 151 einstaklingur hefur fengið 169 nýrnaígræðslur, þar af 96 frá lifandi gjöfum en 73 frá látnum gjöfum.

Út af því sem fram kom hjá hv. þingmanni er einnig rétt að upplýsa að í gangi er starf hjá nefnd heilbrigðisráðuneytisins og félagsmálaráðuneytisins um stöðu þeirra sem gefa líffæri og er þá vísað til þess um bætur til handa þeim. Einnig hefur um langt skeið verið til hópur eða nefnd um læknisfræðilega hlið mála og er hún starfandi á vegum heilbrigðisráðuneytisins. Heilt yfir má segja að ástandið hjá okkur sé nokkuð gott en þetta mál er samt þess eðlis að sjálfsagt og eðlilegt er að fara yfir það og sjá hvað betur megi fara. Við höfum verið að skoða hvað hefur verið gert í öðrum löndum, hvaða leiðir þeir hafa farið og hvað hefur borið góðan árangur en miðað við þau lönd sem við berum okkur saman við þá stöndum við nokkuð vel. En það er ekkert í þessu máli, virðulegi forseti, sem ekki má fara yfir og ræða.

Virðulegi forseti. Ég vona að þessar upplýsingar svari fyrirspurn hv. þingmanns.