135. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2008.

líffæragjafar.

380. mál
[14:49]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður hreyfir mjög mikilvægu máli, sem er staða líffæragjafa og aðstandenda þeirra. Það hefur sýnt sig að mikil eftirspurn er eftir líffærum og tæknin hefur sýnt að við getum náð góðum árangri með því að hafa góðar reglur um líffæragjöf.

Á síðustu missirum hefur verið umræða um það hvernig fjölga megi líffæragjöfum hér á landi og m.a. er verið að velta því fyrir sér hvort koma ætti til skoðunar að í stað upplýsts samþykkis líffæragjafa og aðstandenda þeirra komi ætlað samþykki, sem þýðir að líffæri er gefið nema fyrir liggi neitun frá hendi líffæragjafa eða aðstandenda þeirra. Með því fyrirkomulagi væru líffærakortin óþörf og það hefur sýnt sig að í þeim löndum sem þessi leið er farin hefur framboð á líffærum aukist. Því langar mig að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvort þetta komi til skoðunar í ráðuneyti hans.