135. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2008.

líffæragjafar.

380. mál
[14:54]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka bæði fyrir fyrirspurnina og ágætar umræður. Svona til upplýsingar þá teljast Íslendingar í næsthæsta flokki Evrópuþjóða hvað varðar tíðni líffæragjafa. Tíðnin hér er um 20 gjafar á hverja milljón íbúa. Í Svíþjóð er það 15, Danmörku 12 og í Bretlandi 13. Spánverjar eru í hæsta flokki, tíðnin þar er 34 gjafar á hverja milljón.

Lifandi nýrnagjöfum hefur fjölgað mjög hér á landi. Alls hafa 104 nýru verið gefin úr lifandi gjöfum fram til dagsins í dag. Í nokkrum löndum gerir löggjöf ráð fyrir að allir samþykki líffæragjöf nema þeir hafi haft frumkvæði að neitun. Þessi lönd eru Spánn, Austurríki, Frakkland, Ítalía, Finnland, Noregur, Svíþjóð og fleiri. En í öðrum löndum gerir löggjöf ráð fyrir að allir hafni líffæragjöf nema þeir hafi samþykkt annað og má þar nefna Þýskaland, Holland, Danmörk, Bretland. Tíðni gjafar sýnir sig ekki háða löggjöf.

Á ráðstefnu Evrópuráðsins í haust var farið vandlega yfir þessi mál. Spánverjar lýstu ítarlega kerfinu á Spáni og reynslu sinni. Eindregnar ráðleggingar Spánverja, sem mjög margar þjóðir líta til, er að þjóðir fari ekki út í lagabreytingar þar sem gert er ráð fyrir að allir vilji gefa. Því ákvæði beiti þeir ekki þegar á hólminn er komið. Þeir ráða frá því að hafa gagnagrunna um hugsanlega gjafa og telja það bæði mannfrekt og gagnslítið. Ekki nota kort eða ökuskírteini, eru sjónarmið sem fram komu hjá Spánverjum á þessari ráðstefnu. En ráð Spánverja og fleiri þjóða er að einbeita sér að koma upp teymi um líffæragjafir á þeim sjúkrahúsum þar sem líffæragjafar gætu komið inn. Gott skipulag og þjálfun er lausnin að reynslu og ráðum Spánverja, ekki lagaþvinganir, gagnagrunnar eða kort. Þetta er nokkuð sem við höfum verið að safna saman upplýsingum um í ráðuneytinu. Þetta er ekki pólitískt mál. Þetta er kannski bæði siðferðislegt og kannski praktískt og sjálfsagt að fara yfir það gaumgæfilega og málefnalega. Ég lít svo á að fyrirspurnin hafi verið liður í því.