135. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2008.

atvinnumál kvenna í Suðurkjördæmi.

377. mál
[15:09]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Hanna Birna Jóhannsdóttir) (Fl):

Herra forseti. Fyrirspurnin er lögð fram vegna þekkingar og reynslu minnar af takmörkuðum atvinnutækifærum kvenna í heimabyggð minni Vestmannaeyjum. Þar, líkt og í öðrum byggðarlögum sem grundvallast af sjávarútvegi, vega störf í fiskvinnslu þungt.

Þótt ástand hjá fiskverkunarfólki í Vestmannaeyjum sé nú um stundir nokkuð stöðugt miðað við önnur byggðarlög sem eru undir sjávarútvegi komin má lítið út af bera í atvinnugreininni. Í þessu ljósi má t.d. nefna að á þessu fiskveiðiári hefur útflutningur á óunnum fiski aukist um 30% sem hefur bein áhrif á störf fiskverkunarfólks í landi. Nú eru blikur á lofti um samdrátt vegna loðnunnar.

Fyrirspurn til hæstv. iðnaðarráðherra er eftirfarandi:

Hefur það verið kannað hvernig atvinnumálum kvenna í Suðurkjördæmi er háttað, svo sem um hvaða störf þær stunda og í hve miklum mæli?

Er vitað hvort störfum kvenna í sjávarútvegi, landbúnaði og þjónustu í Suðurkjördæmi hafi fjölgað, þau staðið í stað eða fækkað síðastliðin fimm ár?

Er vitað hvernig atvinnumál kvenna í Suðurkjördæmi hafa þróast miðað við atvinnu kvenna í öðrum kjördæmum?