135. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2008.

atvinnumál kvenna í Suðurkjördæmi.

377. mál
[15:16]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Hanna Birna Jóhannsdóttir) (Fl):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. iðnaðarráðherra fyrir svörin.

Í Suðurkjördæmi eru atvinnumöguleikar tengdir sjávarútvegi og störfum í landbúnaði og ýmiss konar þjónustu og eru mörg þessara starfa oft nefnd láglaunastörf. Ætla má að atvinnumöguleikar kvenna í kjördæminu tengist þessum störfum fyrst og fremst og þess vegna var ég að forvitnast um þessar sveiflur.

Eftir mínum upplýsingum voru 4.000 störf síðastliðið haust á landinu öllu í fiskvinnslu, þar af voru 1.200 unnin af fólki með erlent ríkisfang. Aðeins 40% eru eftir af þeim störfum sem voru til staðar fyrir u.þ.b. 15 árum í greininni og má ætla að þeim hafi nú þegar fækkað, samanber uppsagnir og lokanir fiskvinnslufyrirtækja á síðustu vikum.

Ég endurtek þakkir til hæstv. iðnaðarráðherra fyrir svörin og kem til með að vinna úr þeim upplýsingum sem hér hafa komið fram.