135. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2008.

framkvæmd vaxtarsamnings Eyjafjarðar.

398. mál
[15:29]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég legg áherslu á að meginbreytingin með þessum nýju vaxtarsamningum sem nú hafa verið gerðir samkvæmt hinu nýja formi á þremur stöðum er að færa vald út úr ráðuneytunum til heimamanna. Ég er þeirrar skoðunar að þeir eigi algjörlega að ráða ferðinni. Hlutverk ríkisvaldsins er að setja ákveðnar grunnreglur og það á að koma með smurninginn í formi fjármagns. Við getum svo deilt um hvort fjármagnið sé nægilega mikið með hinum ýmsu samningum. Ég legg þó áherslu á að þeir nýju samningar sem hafa verið gerðir, þ.e. þeir tveir sitt hvorum megin Eyjafjarðarsvæðisins sem ég nefndi í fyrri tölu minni, fara af stað með helmingi meira fjármagn en áður var til siðs, þ.e. menn voru áður með 60 millj. kr. í þessum samningum, Akureyrarsamningurinn var undantekning og heldur sinni upphaflegu upphæð, 90 millj. kr., hinir byrja með 90 millj. kr. startkapítal.

Eins og hv. þingmaður örugglega man var svolítið skæklatog um hugmyndir varðandi vaxtarsamning á Norðvesturlandi vegna þess að ríkisvaldið sá sér ekki fært að koma með nema miklu minni upphæð. Það er í gadda slegið að þeir sem báðu um 90 milljónir fá þær og sama gildir um Norðausturland. Það er alveg fráleitt að með þessum samningum sé með einhverjum hætti verið að loka á klasahugmyndafræðina, þvert á móti er lagt upp með hana. Það verður hins vegar heimamanna að ráða því sjálfir. Áður var það þannig að því var ráðið í ráðuneytinu. Þessir fjórir klasar, heilsuklasi, mennta- og rannsóknarklasi, ferðaþjónustuklasi og matvælaklasi, voru hugmyndir sem klaktar voru í ráðuneytinu. Þær eru góðar fyrir sinn hatt og út úr ýmsum þessum klösum hefur margt gott komið en ég tel að heimamenn eigi að fá að ráða. Það er enginn sem leggst gegn því að menn fylgi þessari hugmyndafræði áfram.

Spurningin um kynninguna. Ég fór sjálfur norður og hélt stóran fund þar sem fjöldi manns mætti og öllum sem tengdust fyrri samningnum var boðið (Forseti hringir.) og þar var þetta kynnt alveg sérstaklega, bæði af mér og atvinnuþróunarfélaginu.