135. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2008.

öryrkjar í háskólanámi.

400. mál
[15:32]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Á undanförnum árum hefur þeim fjölgað mikið sem stunda nám á háskólastigi, háskólum hefur líka fjölgað og þeim námsbrautum sem í boði eru. Þeirri þróun hljóta allir að fagna. Sú spurning vaknar hins vegar hvort áhrifa slíkrar fjölgunar gætir jafnt hjá öllum hópum þjóðfélagsins og hef ég þá öryrkja sérstaklega í huga.

Rannsóknir sýna að menntunarstig öryrkja er lægra en gerist og gengur í samfélaginu og virðist munurinn fara vaxandi eftir því sem ofar dregur í skólakerfinu. Þar hefur vitaskuld áhrif að hluti öryrkja hefur skerta námsgetu og er því ólíklegri til að ljúka langskólanámi. Hér er um mikilsvert hagsmunamál öryrkja að ræða. Ljóst er að með meiri menntun eykst svigrúm þessa hóps til að leita sér að vinnu á nýjum vettvangi. Þá má ekki gleyma mikilvægi menntunar til þess að styrkja sjálfsmynd fólks og auka þannig lífsgæði þess.

Virðulegi forseti. Í skýrslu Stefáns Ólafssonar, Örorka og velferð á Íslandi, kemur fram að mun stærri hluti öryrkja ætti að geta stundað framhaldsnám og nám á háskólastigi en nú er. Það má því vera ljóst að Íslendingar geta gert mikið átak á þessu sviði landsmönnum öllum til hagsbóta. Í ljósi alls þessa beini ég eftirfarandi spurningum til menntamálaráðherra og vona að sú umræða sem spurningunum fylgir verði til að hreyfa við menntunarmálum öryrkja og leiði til þess að hugað verði frekar að menntun þeirra á háskólastigi.

Ég spyr því:

1. Hversu margir nemendur í Háskóla Íslands njóta afsláttar af skrásetningargjöldum sem ætlaður er öryrkjum?

2. Hversu hátt hlutfall er það af heildarnemendafjölda skólans og hvernig skiptist það eftir kynjum?

3. Hvert er hlutfall öryrkja í öðrum menntastofnunum á háskólastigi?

4. Liggur fyrir aðgerðaáætlun á vegum ráðuneytisins um það hvernig fjölga megi öryrkjum í háskólanámi?