135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

loðnubrestur og mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar.

[10:38]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svörin en ég mæli með því að ríkisstjórnin spýti í lófana. Varðandi loðnuveiðarnar þá gagnrýni ég ekki að veiðar séu stöðvaðar í bili. Það verður að taka ábyrga afstöðu við alvarlegar aðstæður af þessu tagi. Hitt er ljóst að ef réttlætanlegt verður talið á einhverjum tímapunkti að lokinni meiri mælingu að veiða þótt ekki væri nema einhverja tugi þúsunda tonna, þá má gera úr því mikil verðmæti ef því er þannig stýrt að það væri skilyrt til manneldisvinnslu. Þeim litla kvóta sem þá væri talið réttlætanlegt að veiða, væri aðeins ráðstafað í hrognatöku og frystingu fyrir Japansmarkað og einungis hrat fengi að fara í bræðslu. Ég mæli með því að hæstv. sjávarútvegsráðherra hugi að því.

Varðandi aðra hluti í þessum efnum þá er óhjákvæmilegt að skoða stöðu hafnarsjóða, sveitarfélaga, fyrirtækja, sjómanna og landverkafólks sem verður fyrir viðbótaráfalli og var þó nóg komið fyrir þannig að undan því verður ekki vikist, hæstv. forsætisráðherra, að takast á við þetta. Við ræðum það svo betur þegar við höfum meiri tíma vonandi að viku liðinni.