135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

stöðvun loðnuveiða og hafrannsóknir.

[10:40]
Hlusta

Ólöf Nordal (S):

Hæstv. forseti. Það bárust grafalvarleg tíðindi í gær þegar hæstv. sjávarútvegsráðherra tók, að tillögu Hafrannsóknastofnunar, ákvörðun um að hætta loðnuveiðum nú á hádegi í dag. Ég er ekki í nokkrum vafa um að þetta hafi verið erfið ákvörðun, því miður ekki sú fyrsta en sú eina í stöðunni. Við horfðum upp á niðurskurð þorskkvóta síðasta sumar og nú blasa erfiðleikar við í loðnuveiðum. Áfallið fyrir sjávarbyggðirnar í landinu er þungt. Útvegsmenn telja að útgerð á Norðaustur-, Austurlandi og Suðurlandi sé í hættu. Tjónið hleypur á milljörðum kr. og mun hafa veruleg áhrif á afkomu hundruð manna.

Loðnuveiðar eru eins og við vitum stundaðar vítt og breitt umhverfis landið en ef horft er sérstaklega til Austfjarða er ljóst að afkoma 400 manna er í hættu vegna þessa ástands. Hverju er um að kenna? spyrja menn. Hlýnun í hafinu, loðnan hrekst undan hlýjum sjó, heitum sjó. Eitthvað er að gerast í lífríki sjávar. Allt er þetta nefnt sem hugsanlegir áhrifaþættir og allt horfir til þess að rannsóknir Hafrannsóknastofnunar verði sífellt mikilvægari. Þess vegna langar mig að spyrja hæstv. sjávarútvegsráðherra að því hvort það sé réttur skilningur hjá mér að hafrannsóknaskipin okkar muni vakta miðin á næstunni og halda áfram að leita að loðnunni. Telur hæstv. ráðherra ekki brýna ástæðu til þess í ljósi þessara tíðinda að auka hafrannsóknir við Ísland? Ef breyting verður á og loðnan birtist skyndilega eins og hún gæti gert, mun þá ráðherrann þegar í stað endurskoða ákvörðun sína um stöðvun loðnuveiða?