135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

stöðvun loðnuveiða og hafrannsóknir.

[10:42]
Hlusta

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er rétt að sú ákvörðun sem tekin var síðdegis í gær var mjög alvarleg og hún mun hafa mjög alvarlegar afleiðingar í för með sér en ég hygg að flestum sé ljóst að hún var algerlega óhjákvæmileg við þessar aðstæður. Ég vil í þessu sambandi vekja athygli á því að við bönnum nú loðnuveiðar og það kemur ofan í tvær mjög lélegar loðnuvertíðir. Þær bera vott um að þessi atvinnugrein horfist nú í augu við mjög alvarlegt ástand í framhaldi af því. Það er hins vegar athyglisvert að fólk í atvinnugreininni hefur fram að þessu sýnt ótrúlega mikla aðlögunarhæfni og útsjónarsemi og menn hafa búið til meira verðmæti úr minna magni með alls konar aðferðum. Þær hafa leitt til þess að við notum meiri hluta af loðnukvótanum til manneldis nú en nokkru sinni áður.

Aðalatriðið er það sem hv. þingmaður nefndi áðan, að við fylgjumst mjög vel með því sem er að gerast á miðunum og það er það sem bæði sjómenn, útvegsmenn, vísindamenn okkar og aðrir þeir sem mesta þekkingu hafa í þessum efnum hafa lagt mikla áherslu á. Við vitum að loðnan er, eins og stundum er sagt, brellinn stofn og það hefur áður gerst að hún hefur dúkkað upp mjög skyndilega án þess að menn hafi átt von á því. Þess vegna er það aðalatriði sem við höfum gert, að gefa fyrirtækjunum eða skipunum möguleika á því að vakta miðin til að byrja með og síðan munu hafrannsóknaskipin taka við og auðvitað verður fylgst grannt með því. Ef meiri loðna finnst sem dugir til að skapa forsendur fyrir útgáfu loðnukvóta að nýju, verður það að sjálfsögðu gert. Okkur er ljóst að við byggjum á ákveðnum grundvallarfræðum sem ég hygg að hafi í meginatriðum reynst vel.

Það er síðan alveg rétt að við þurfum auðvitað að auka hafrannsóknir okkar. Við höfum verið að leggja aukið fé til Hafrannsóknastofnunar sem leiddi m.a. til þess að þeir gátu farið norður í höf til að fylgjast með loðnunni vegna þess að margir telja að hún hafi sótt á norðlægari slóðir. (Forseti hringir.) Það er mjög þýðingarmikið að við getum haldið því áfram.