135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

stöðvun loðnuveiða og hafrannsóknir.

[10:44]
Hlusta

Ólöf Nordal (S):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. sjávarútvegsráðherra fyrir þessi svör. Ég endurtek að ég held að ekki hafi verið neitt annað að gera í þessari stöðu en að stöðva veiðarnar eins og ráðherrann gerði að tillögu Hafrannsóknastofnunar. En það skiptir líka miklu máli að þeir sem starfa við þessa útgerð og ekki síst þeir sem byggja afkomu sína á henni, fái það á tilfinninguna og sjái að stjórnvöld eru að reyna að gera það sem hægt er til þess að leita að þessu ólíkindatóli sem loðnan er. Ef hún skyldi nú dúkka upp eftir tvær, þrjár vikur þá gætum við reynt að ná henni.

Varðandi rannsóknirnar, þá höfum við rætt það áður í tengslum við þorskkvótann og fleira. Auðvitað eru hafrannsóknir eitt af mikilvægustu verkefnunum sem blasa við okkur og við megum aldrei gleyma mikilvægi sjávarútvegs og rannsóknum í því skyni. Ég hvet því ráðherrann eindregið til að halda skipunum úti á sjó, halda áfram að leita og setja meiri peninga í rannsóknir.