135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

hækkun á bensíni og dísilolíu.

[10:58]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég hygg að flestum sem í þessum sal sitja hafi verið það ljóst sem hæstv. forsætisráðherra fór hér yfir. En spurningin var einfaldlega sú hvort ríkisstjórnin hygðist taka til endurskoðunar þær álögur sem eru á bensíni og dísilolíu með það að markmiði að lækka kostnað neytenda.

Nú er það svo að nánast allir flutningar í landinu eru komnir á þjóðvegina og ég hygg að bílanotkun Íslendinga og bílaeign fari ekki minnkandi heldur frekar vaxandi. Þar af leiðandi held ég að það hljóti að liggja nokkurn veginn á borðinu að með óbreyttu verði og álögum ríkisins þá hækka tekjur af gjaldinu miðað við það sem við gerðum ráð fyrir í fjárlögum. Þess vegna spurði ég hæstv. forsætisráðherra að því hvernig hann hygðist bregðast við þegar tekjur keyra fram úr því sem við gerðum ráð fyrir.