135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

fæðingar- og foreldraorlof.

387. mál
[12:06]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Fyrir liggur tillaga um breytingar á lögum nr. 95 frá árinu 2000, um fæðingar- og foreldraorlof. Eins og komið hefur fram í umræðunni voru þetta mjög framsækin lög og eru afar mikilvæg í sambandi við réttindi barna og réttindi foreldra í tengslum við fæðingar.

Hér er nú komið fram enn eitt málið frá hæstv. ríkisstjórn og hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra þar sem verið er að breyta og bæta atriði sem þurfti að færa til betri vegar, uppfæra lög. Við höfum séð þetta varðandi rétt foreldra langveikra barna og raunar fleiri mál. Ég er mjög ánægður með að sjá að hér kemur fram mál — jafnvel þó að ekki hafi tekist að útfæra í smáatriðum lengingu fæðingarorlofsins úr níu mánuðum í tólf sem fyrirhuguð er, að þá sé ekki verið að bíða eftir þeirri lengingu heldur drifið í að laga þau atriði sem eru mikilvæg réttarbót og þessi lög jafna strax. Ég treysti svo á að inn í boðaða rammaáætlun, þriggja ára áætlun ríkisstjórnarinnar komi lengingin. Þá skýrist með hvaða hætti og á hvaða tíma lengingin í tólf mánuði verður.

Það hefur komið fram hér að þessi lög eru afar mikið jafnréttismál og tryggja ekki síst aðkomu feðra að fæðingarorlofinu. Það kemur fram í umræðunni hér að það er svolítið vandmeðfarið, t.d. þegar verið er að ræða um réttindi einstæðra foreldra, hvort megi færa yfir á einstæða foreldra réttinn til lengingar ef þannig stendur á. Það þarf að gæta þess að það verði ekki til þess að menn séu pressaðir til að taka ekki fæðingarorlofið. Það er eitthvað sem þarf að skoðast í nefndinni og fara mjög varlega með þannig að við missum ekki það áhersluatriði að feður komi að uppeldi barna.

Ég ætla ekki að fara yfir öll smáatriðin í frumvarpinu. Það hefur verið gert ágætlega. Þó held ég að allir geti tekið undir að mikilvægasta atriðið er einmitt viðmiðunartíminn varðandi greiðslur úr sjóðnum. Eins og réttilega hefur komið fram í umræðunni er verið að hækka greiðslurnar með því að færa viðmiðunartímabilið nær og stytta það. Ég hefði svo sem sjálfur getað séð að farið hefði verið enn nær, með nútímatækni hefði ekkert átt að vera í veginum fyrir að mánuðurnir væru þrír en ekki sex. En þarna er alla vega stigið mjög stórt skref í réttlætisátt og þá nær því að greiðslur nemi þeim 80% sem lögin gera ráð fyrir af rauntekjum.

Einnig ber að fagna því að réttur forsjárlausra er aukinn í þessum breytingum og þar er líka rýmkun á tilfærslum réttar á milli foreldra þrátt fyrir það sem ég sagði áðan. Allt eru þetta mál sem skipta mjög miklu og sama gildir með rétt námsmanna til fæðingarstyrks. Það er atriði sem hefur verið í reglugerðum og er fært inn í lögin og réttur gagnvart nemendum þar sem undanþága er veitt frá lögheimilisskyldum, fjarnám tekið inn og fleira sem gert hefur verið grein fyrir. Allt þetta skiptir mjög miklu máli og það er brýnt að tryggja að rétturinn sé almennur og að börnin fái að njóta þess að vera með foreldrum í níu mánuði þar sem því verður mögulega við komið. Þarna kemur líka inn skilgreining á orðalaginu „fullt nám“. Það er ekki bara 100%. nám Það getur verið 75–100% og það getur verið verklegt eða bóklegt. Það eru þarna skilgreiningar sem skipta líka máli varðandi réttindi námsmanna en almennt er verið að bæta hag þeirra í frumvarpinu.

Þá er líka spennandi að sjá með hvaða hætti það hefur áhrif að Vinnumálastofnun tekur nú við af skattyfirvöldum varðandi eftirlit og umsjón með Fæðingarorlofssjóðnum. Það hefur komið fram í umræðunni af og til að sérstaklega feður hafa stundað vinnu í fæðingarorlofi, laumast í burtu og stundað málningarvinnu einhvers staðar annars staðar eða eitthvað slíkt. Það er alls ekki tilgangurinn með lögunum og því er mjög mikilvægt að menn reyni að sporna gegn því og að tryggt sé að börnin fái að njóta þess að hafa feðurna hjá sér og við búum þannig í haginn að því verði fylgt eftir. Einnig er tekið á smærri atriðum eins og tilkynningaskyldu og öllu skrifræðinu varðandi fæðingarorlofið. Það er fært til betri vegar og ber að fagna því.

Í heildina er þetta spennandi mál og ég hlakka til að fá að takast á við það í félags- og tryggingamálanefnd. Ég þakka allar þær góðu ábendingar sem nú þegar hafa komið fram í umræðunni. Margt af því kemur einmitt frá félögum mínum í félags- og tryggingamálanefnd og ég veit að þeir munu fylgja þeim málum þar eftir. T.d. er búið að nefna þetta með útgjöldin, með hvaða hætti það fellur. Auk þess á ég von á því að hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra geri nánar grein fyrir þessum málum í lokaræðu sinni hér.

Ég fagna því að málið skuli vera komið fram, hafi verið drifið inn í þingið, og treysti á að það komi til afgreiðslu á yfirstandandi þingi.