135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

almannatryggingar.

410. mál
[12:34]
Hlusta

félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, og lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, með síðari breytingum.

Lífeyrishluti almannatrygginga fluttist þann 1. janúar sl. frá heilbrigðisráðuneytinu til nýs félags- og tryggingamálaráðuneytis og er þetta frumvarp hið fyrsta sem ég flyt sem ráðherra tryggingamála. Ég vil því byrja mál mitt hér á því að segja að ég fagna því að hafa fengið þennan málaflokk í ráðuneyti mitt og ekki síður starfsemi Tryggingastofnunar ríkisins sem er umfangsmikil hvernig sem á það mál er litið. Til stofnunarinnar leita í dag um 30% landsmanna árlega og ég tel afar mikilvægt að tryggja að þjónusta stofnunarinnar og starfsemi í heild sé á hverjum tíma öflug og vönduð.

Mér hefur oft fundist umræðan um starfsfólk Tryggingastofnunar ríkisins afar ósanngjörn þar sem ég þekki til þess góða og reynda starfsfólks sem þar hefur starfað jafnvel um áratugaskeið. Oft á tíðum er starfsfólkið að framfylgja ákvörðun stjórnvalda sem reynast íþyngjandi fyrir borgarana í framkvæmd og þá er ekki von á góðu. Ég vona að ég geti stuðlað að úrbótum á næstu árum með starfsfólki Tryggingastofnunar og horft til ýmissa hluta í því efni.

Hæstv. forseti. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 23. maí sl. er fjallað sérstaklega um bættan hag aldraðra og öryrkja og að unnið verði að einföldun almannatryggingakerfisins. Eins og hv. alþingismenn þekkja hefur grundvallarumræða um almannatryggingakerfið of sjaldan farið fram á vettvangi löggjafans frá því að fyrstu lög um almannatryggingar voru sett árið 1936. Umræða undangenginna missira um lífeyriskerfi almannatrygginga hefur að mínu mati verið fremur ómarkviss og of neikvæð, hún hefur nánast einvörðungu snúist um framkvæmdina, endurreikningana og of- og vangreiðslu lífeyris sem oft hafa leitt til endurkrafna sem hafa komið illa við lífeyrisþega. Vegna þessa hafa kröfur um afnám tekjutenginga og skerðinga verið háværar. Ef vilji stendur til þess að þeir sem lakast standa fjárhagslega njóti frekari greiðslna en þeir sem betur mega sín úr almannatryggingakerfinu þarf að vinda ofan af þessari umræðu og standa vörð um vissar tengingar við tekjur. Ræða þarf í þaula hve miklum og hvers kyns tengingum þurfi að halda inni í kerfinu og hve mikil framfærslutryggingin eigi að vera. Mikilvægt er að hafa góða heildaryfirsýn yfir allar bætur og framfærslugreiðslur við slíkt mat. Jafnframt er nauðsynlegt að ná góðri sátt um innbyrðis samspil meginstoða lífeyriskerfisins.

Við eigum áfram að byggja upp öflugt almannatryggingakerfi sem stendur vörð um þá sem minna mega sín á sama tíma og hér er að verða til eitt sterkasta lífeyrissjóðakerfi í heimi. Nýjar tölur frá OECD benda til þess að lífeyrissparnaður sé hlutfallslega mestur á Íslandi meðal samanburðarþjóða og er þá byggt á tölum frá árinu 2006. Því hljótum við að fagna og sjá í því sóknarfæri í uppbyggingu öflugs almannatryggingakerfis.

Ég vonast til þess að sú einföldun sem nú er unnið að á vegum verkefnisstjórnar félags- og tryggingamálaráðuneytisins í samráði við hagsmunaaðila sem mynda ráðgjafahóp við hlið verkefnisstjórnarinnar muni kalla á umræður um almannatryggingar og framtíðarsýn á því sviði. Við þurfum að taka umræðu um samspil lífeyrissjóðstekna annars vegar og almannatrygginga hins vegar og hvernig við ætlum okkur að búa að lífeyrisþegum í framtíðinni. Ég legg ríka áherslu á að haft verði samráð við hagsmunasamtök aldraðra og öryrkja í þeirri vinnu sem er fram undan. Við verðum jafnframt að fylgjast mjög vel með þróun mála vegna breyttrar aldurssamsetningar þjóðarinnar en samkvæmt spám Hagstofunnar mun fjöldi Íslendinga 67 ára og eldri tvöfaldast til ársins 2045, þannig að verkefnið er ærið bæði að því er varðar ellilífeyrisþega og þjónustu við aldraða almennt og í heild sinni.

Frumvarp það sem ég mæli hér fyrir sýnir að ríkisstjórnin vill setja málefni lífeyrisþega í forgang. Frumvarpið felur í sér breytingar á ákvæðum tveggja lagabálka og er í meginatriðum byggt á tillögum verkefnisstjórnar sem ég skipaði þann 1. október sl. Verkefnisstjórnin skilaði mér tillögum sínum eins og að var stefnt fyrir 1. desember sl. og ríkisstjórnin kynnti þær með yfirlýsingu þann 5. desember sl. Tillögurnar eru í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar varðandi eðlilegar fyrstu aðgerðir í þágu aldraðra og öryrkja. Frumvarpið felur í sér afar mikilvægar efnisbreytingar sem allar miða að því að bæta kjör aldraðra og öryrkja sem njóta greiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins. Í því eru m.a. ákvæði um afnám tekjutenginga, umtalsverðar hækkanir frítekjumarka vegna atvinnutekna, sérstök frítekjumörk vegna fjármagnstekna og lífeyrissjóðstekna, beinar hækkanir bóta og lækkun skerðingarhlutfalls ellilífeyris. Breytingar þessar munu ýmist öðlast gildi 1. apríl eða 1. júlí nk. og loks mun afnám skerðingar vegna séreignarsparnaðar öðlast gildi um næstu áramót.

Hæstv. forseti. Ég mun nú rekja nánar helstu breytingar sem í frumvarpinu felast. Í 1. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að gripið verði til sérstakra aðgerða til að draga úr of- og vangreiðslum tekjutengdra bóta með því að sett verði 90 þús. kr. frítekjumark á fjármagnstekjur á ári. Þetta hefur það í för með sér að fyrstu 90 þús. kr. sem fólk fær í fjármagnstekjur munu ekki skerða bætur lífeyristrygginga. Bætur til 16.200 ellilífeyrisþega og 4.200 örorkulífeyrisþega gætu hækkað við þessa breytingu eða alls til 20.400 manns. Það verður þó að hafa það hugfast að fjármagnstekjur eru mjög breytilegar milli ára og því erfitt að fastsetja tölu í þessu sambandi. Þá skiptir heildarsamsetning teknanna líka miklu máli um hvort viðkomandi hagnast á frítekjumarkinu eða ekki. Það er þó alveg ljóst að breytingin mun bæta hag margra lífeyrisþega sem hafa þurft að sæta bótaskerðingu vegna fjármagnstekna sem ekki teljast óeðlilega háar. Tryggingastofnun ríkisins hefur ekki tök á að hafa reglubundið eftirlit með myndun fjármagnstekna og reynslan sýnir að stóran hluta ofgreiðslna sem myndast hafa við árlegt uppgjör bóta lífeyristrygginga má rekja til þess að bótaþegar hafa ekki tilkynnt Tryggingastofnun um fjármagnstekjur sínar og sýna tölur stofnunarinnar að um 90% ellilífeyrisþega og 95% örorkulífeyrisþega hafa fjármagnstekjur undir þessum mörkum þannig að þessi aðgerð ein og sér mun örugglega hafa áhrif í þá átt að verulega mun draga úr hinum svokölluðu ofgreiðslum.

Ég hygg að óhætt sé að fullyrða að ofgreiðslum mun fækka umtalsvert og það er lagt til að ákvæðið komi til framkvæmda við endurreikning bóta og vistunarframlag ársins 2007 sem fer fram haustið 2008. Í þessu sambandi ber að hafa hugfast að við endurreikning bóta ársins 2006 kom í ljós að rekja mátti um helming allra ofgreiðslna til fjármagnstekna. Tölur Tryggingastofnunar ríkisins sýna að samkvæmt tekjuáætlun lífeyrisþega til TR voru samanlagðar fjármagnstekjur þeirra um 22 milljarðar kr. en samkvæmt skattframtölum námu þessar sömu tekjur tæpum 44 milljörðum eða um tvöfalt hærri upphæð en stofnunin hafði upplýsingar um og það hefur auðvitað leitt til þessara ofgreiðslna eins og ég hef hér skýrt. Hér ber sérstaklega að nefna söluhagnað sem var næstum 200% hærri en tekjuáætlanir bótaþeganna sýndu. Þetta er skýringin í grófum dráttum á þeim mismun sem þarna kemur fram og auðvitað er líka um vangreiðslur að ræða, þannig að það er líka leiðrétt vegna þeirra sem ekki fengu fullan rétt sinna bóta, sem eru verulegar fjárhæðir til bótaþega sem hafa sætt vangreiðslum.

Til viðbótar má geta þess að nú er hafin markviss vinna hjá Tryggingastofnun ríkisins við breytingar á verklagi með það að markmiði að draga úr áhrifum of- og vangreiðslna til lífeyrisþega, einkum í formi eftirlits, með því að áætlaðar tekjur séu í samræmi við upplýsingar sem stofnunin aflar sér úr staðgreiðsluskrá skattyfirvalda og aðgerðum ef þar gætir ekki samræmis. Ekki er kveðið á um breytingar að þessu leyti í frumvarpinu en stefnt er að breyttri framkvæmd stofnunarinnar við þetta eftirlit. Ef misræmi milli áætlaðra tekna og tekna samkvæmt staðgreiðsluskrá kemur fram í eftirliti hefur hingað til verið tilkynnt um það og skorað á viðkomandi að breyta tekjuáætlun. Ekkert hefur verið aðhafst ef engin viðbrögð hafa borist en nú er fyrirhugað að breyta bótum til samræmis við upplýsingar úr staðgreiðsluskrá nema viðkomandi geri athugasemdir við það. Það verklag hefur stoð í reglugerð um útreikning, endurreikning og uppgjör bóta, nr. 939/2003, með síðari breytingum.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir að skerðing bóta vegna tekna maka verði að fullu afnumin frá og með 1. apríl 2008. Með lögum nr. 166/2006 var stigið skref í þá átt að draga úr tengingu við tekjur maka í almannatryggingakerfinu og hafa tekjur maka úr lífeyrissjóðum ekki lengur áhrif við útreikning bóta. Aftur á móti hafa atvinnutekjur maka enn áhrif til skerðingar bóta en 25% þeirra koma til skerðingar á móti 75% af eigin tekjum lífeyrisþega og vistmanna. Hér er sem sagt lagt til að sú skerðing verði að fullu afnumin og mun það koma fjölda viðskiptavina Tryggingastofnunarinnar að góðum notum, enda mikið réttlætismál á ferðinni og þess lengi verið krafist af samtökum eldri borgara og öryrkja að afnema slíkar tengingar að fullu. Samkvæmt upplýsingum Tryggingastofnunar munu 5.800 lífeyrisþegar uppskera hærri bætur frá stofnuninni við þessa breytingu, þ.e. um 3.900 öryrkjar og um 1.900 ellilífeyrisþegar.

Sem dæmi um áhrif breytinganna má nefna tekjulausan ellilífeyrisþega sem er í hjúskap með maka sem hefur atvinnutekjur að upphæð 200 þús. kr. á mánuði. Miðað við núgildandi reglur skerðist tekjutrygging lífeyrisþegans um rúmar 19 þús. kr. á mánuði en eftir breytinguna fær lífeyrisþeginn fulla tekjutryggingu án þess að tekjur makans komi til skerðingar. Hann fær því um 230 þús. kr. hærri bætur á ári en nú er. Jafnframt er gert ráð fyrir að í lögunum verði ákvæði til bráðabirgða þar sem kveðið er á um að til og með 31. desember 2009 sé hægt að óska eftir því hjá Tryggingastofnun ríkisins að stofnunin geri samanburð á útreikningi elli- og örorkulífeyris og tekjutryggingar fyrir og eftir gildistöku laganna. Ef samanburðurinn leiðir til hærri bóta samkvæmt eldri lögum er heimilt að greiða hærri bæturnar á því tímabili. Í framkvæmd velur tölvukerfi Tryggingastofnunarinnar hagstæðari kostinn fyrir viðskiptavin stofnunarinnar. Þetta er gert til að tryggja að bætur lækki ekki í þeim tilvikum sem lífeyrisþeginn eða vistmaðurinn hefur hærri tekjur en makinn, sem auðvitað er fremur fátítt.

Í þriðja lagi er lagt til að frítekjumark vasapeninga vistmanna á stofnunum verði afnumið frá og með 1. apríl 2008 en á sama tíma verði fjárhæð vasapeninga hækkuð með breytingu á reglugerð úr 30 þús. kr. á mánuði í 36.755 kr. Þetta er breyting sem mun koma tekjulægstu vistmönnum að mestum notum en fjárhæð vasapeninga til tekjulausra mun þannig t.d. hækka um tæpar 7 þús. kr. á mánuði eftir breytinguna. Alls eru um 500 vistmenn með tekjur undir frítekjumarki og munu þeir allir fá greidda hærri vasapeninga eftir breytinguna. Þá munu margir þeirra sem nú eru yfir gildandi frítekjumarki einnig fá nokkra hækkun. Með því að hækka fjárhæð vasapeninga samhliða afnámi frítekjumarks eru ráðstöfunartekjur tekjulágra vistmanna hækkaðar en jafnframt tryggt að enginn vistmaður muni fá lægri greiðslur en hann fær í dag. Ég undirstrika það í þessu samhengi að enda þótt þessi réttarbót og hækkun sé nú lögð til vil ég jafnframt að unnið verði að breytingum á greiðslufyrirkomulagi á öldrunarstofnunum þannig að það samrýmist grundvallarsjónarmiðum okkar um mannréttindi og að allir fái upplifað fullt fjárræði og sjálfræði. Ég hef beint þeim tilmælum til verkefnisstjórnar um einföldun á almannatryggingakerfinu að þetta atriði verði tekið til sérstakrar skoðunar og treysti því að það verði gert og þetta úrelta fyrirkomulag verði afnumið. Við höfum m.a. fyrirmynd að greiðslufyrirkomulagi í þjónustu við fatlaða sem ég vil að skoðað verði hvort hafa megi til hliðsjónar.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að skerðingarhlutfall ellilífeyris, svonefnds grunnlífeyris verði lækkað úr 30 í 25% frá og með 1. apríl 2008. Frá sama tíma verði frítekjumark ellilífeyris hækkað með breytingum á reglugerð um tekjumörk lífeyristrygginga. Með þessu munu greiðslur ellilífeyris skerðast við sömu tekjumörk og greiðslur örorkulífeyris og skerðingarhlutfallið verður hið sama. Þessi breyting er tvímælalaust til hagsbóta fyrir ellilífeyrisþega þegar lífeyrisgreiðslur um 460 þeirra munu hækka samfara breytingunni. Þá stuðlar breytingin jafnframt að einföldun almannatryggingakerfisins þar sem frítekjumörk og skerðingarhlutföll elli- og örorkulífeyris eru samræmd. Þessi breyting gerir það einnig að verkum að minni hætta er á því að réttur til greiðslu tekjutryggingar og heimilisuppbótar falli niður við það eitt að lífeyrisþegi eykur lítillega ráðstöfunartekjur sínar með atvinnutekjum og missir við það rétt til greiðslu grunnlífeyris en samkvæmt almannatryggingalögum greiðist tekjutryggingin aðeins þeim sem fá greiddan grunnlífeyri. Sem dæmi um þetta má nefna að einhleypur lífeyrisþegi sem hefur 277 þús. kr. í mánaðartekjur eða rúmar 3,3 millj. kr. á ári fær rúmar 48 þús. kr. í bætur frá Tryggingastofnun ríkisins, þ.e. 3 kr. í grunnlífeyri, 43 þúsund í tekjutryggingu og 5.119 í heimilisuppbót. Auki hann tekjur sínar um 100 kr. á mánuði hefur það þau áhrif að hann á ekki lengur rétt til grunnlífeyris vegna tekna og við það falla niður allar greiðslur til hans sem skipta þá tugum þúsunda. Breytingin dregur verulega úr þessari hættu.

Í 1. gr. frumvarpsins er sett ákvæði um að frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega á aldrinum 67–70 ára verði hækkað úr 300 þús. kr. á ári í 1.200 þúsund frá og með 1. júlí 2008. Þetta þýðir að ellilífeyrisþegar geta aflað sér tekna af atvinnu upp að 100 þús. kr. á mánuði án þess að það hafi áhrif til skerðingar á lífeyrisgreiðslu þeirra í stað 25 þús. kr. áður. Munu greiðslur til um 700 ellilífeyrisþega hækka um leið og breytingin tekur gildi og án efa munu allmargir eldri borgarar sem ekki þiggja bætur frá Tryggingastofnun ríkisins vegna núverandi skerðinga sækja um bætur. Gildir hið sama um vistmenn á dvalarheimilum en með lögum nr. 105/2007 var tenging launatekna 70 ára og eldri við lífeyri almannatrygginga að fullu afnumin. Rannsóknir hafa sýnt að það er þjóðhagslega hagkvæmt að eldri borgarar vinni kjósi þeir að gera það. Þannig sýnir rannsókn Rannsóknarseturs verslunarinnar við Háskólann á Bifröst fram á aukna framleiðni og þjóðhagslega hagkvæmni samfara því að tekjutengingar aldraðra og öryrkja yrðu afnumdar. Ég vil að við horfum til þess, ekki síst þar sem atvinnuleysi hefur ekki mælst minna í 20 ár. Við slíkar aðstæður er það tvímælalaust hagkvæmt fyrir samfélagið að hvetja til aukinnar atvinnuþátttöku lífeyrisþega.

Breytingin nú hefur t.d. þau áhrif að bætur til einhleyps ellilífeyrisþega sem hefur 1.200 þús. kr. í árslaun af atvinnu munu hækka um liðlega 374 þús. kr. á ári. Má því vænta að þessi breyting muni stuðla að aukinni atvinnuþátttöku eldri borgara sem kjósa að vinna lengur og þar með að auknum lífsgæðum þeirra. Í frumvarpinu er ekki lögð til sams konar breyting hvað örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega varðar en gert er ráð fyrir að framkvæmdanefnd forsætisráðherra um endurskoðun örorkumats og eflingu starfsendurhæfingar vinni að tillögum um framkvæmd sem stuðlar að því að ná svipuðum markmiðum hvað varðar þá hópa. Gert er ráð fyrir því að tillögur nefndarinnar muni m.a. fela í sér að sett verði ígildi sambærilegs frítekjumarks á atvinnutekjur örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega. Þessar tillögur munu koma til umfjöllunar í þingnefnd um leið og nefnd forsætisráðherra skilar af sér sem vonandi verður fljótlega.

Þessi útfærsla eins og ég hef kynnt hana og þetta fyrirkomulag hefur verið kynnt Öryrkjabandalaginu sem ekki hefur gert athugasemd við að þessi háttur verði hafður á. Ég bind miklar vonir við vinnu framkvæmdanefndarinnar og treysti því að útfærslan reynist uppbyggileg og tryggi virka þátttöku öryrkja í samfélaginu. Í þeim býr mikill og dýrmætur mannauður sem okkur ber skylda til að virkja þeim sjálfum og okkur öllum til góðs. Ég vil leggja aukna áherslu á starfsendurhæfingu eða aðra hæfingu sem nýtist öryrkjum sem best og útfærslan verður vissulega unnin í samvinnu við hagsmunasamtök öryrkja. Það er grundvallaratriði í mínum huga.

Í sjötta lagi er gerð sú breyting að fjárhæð aldurstengdrar örorkuuppbótar hækkar frá og með 1. júlí 2008. Gert er ráð fyrir að fjölgað verði í hópi þeirra sem fá 100% uppbót vegna ungs aldurs þegar örorka er metin í fyrsta sinn og að aldursviðmiðið verði fært úr 19 ára aldri í 24 ár. Þannig mun einstaklingur sem metinn var til örorku 24 ára gamall fá 100% uppbót eftir breytinguna í stað 85% nú. Þetta mun auka bætur viðkomandi um liðlega 46 þús. kr. á ári. Uppbótin er ótekjutengd og því koma hækkanir hennar óskiptar til allra örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega nema þeirra sem þegar fá 100% uppbót. Alls munu um 12 þúsund örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegar njóta hækkunarinnar þó mismikil sé og eru hækkanirnar mismunandi eftir því hvenær viðkomandi var fyrst metinn til örorku.

Í 5. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir því nýmæli að sett verði 300 þús. kr. frítekjumark á lífeyrissjóðsgreiðslur örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega frá og með 1. júlí 2008. Þessi breyting hefur þau áhrif að lífeyrissjóðstekjur þeirra upp að 300 þús. kr. á ári munu ekki skerða tekjutryggingu þeirra eða heimilisuppbót. Um helmingur allra örorkulífeyrisþega eða um 7 þúsund manns munu njóta frítekjumarksins í formi hærri bóta frá Tryggingastofnun. Með þessari breytingu er jafnframt komið til móts við áherslur lífeyrissjóðanna um að dregið verði úr víxlverkun á skerðingum milli bóta almannatrygginga og lífeyrissjóðanna. Er þess vænst að það verði til þess að lífeyrissjóðirnir taki til endurskoðunar skerðingar á lífeyrissjóðsgreiðslum vegna lífeyris almannatrygginga.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir m.a. að stefnt skuli að því að ríkissjóður tryggi ellilífeyrisþegum lífeyri að lágmarki 25 þús. kr. frá lífeyrissjóði. Í frumvarpi þessu er ekki kveðið á um þær breytingar þar sem fjármálaráðuneytið vinnur nú að tillögum um framkvæmd slíkra greiðslna en að þeim er nú unnið af fullum krafti og þær verða lagðar fyrir Alþingi innan skamms til umfjöllunar.

Í áttunda lagi er gerð sú breyting að skerðing lífeyrisgreiðslna vegna innlausnar séreignarsparnaðar verði afnumin frá 1. janúar 2009. Innlausn séreignarsparnaðar hefur eftir það ekki áhrif við útreikning elli- og örorkulífeyris en samkvæmt núgildandi lögum eru slíkar tekjur ekki undanskildar við útreikning tekjutryggingar og heimilisuppbótar og því skerðast þeir bótaflokkar við slíka innlausn. Þannig skerðist miðað við núgildandi tekjutryggingu og heimilisuppbót til einhleyps ellilífeyrisþega sem innleysir 500 þús. kr. séreignarsparnað um 20.687 kr. á mánuði eða rúmar 248 þúsund á ári eða um helming. Þessari skerðingu verður hætt um næstkomandi áramót. Af tæknilegum ástæðum verður breytingunni ekki við komið fyrr en um næstu áramót en ríkisskattstjóri verður að fá sundurliðaðar upplýsingar frá lífeyrissjóðum um annars vegar almennar lífeyrisgreiðslur og hins vegar greiðslur vegna innlausnar séreignarsparnaðar áður en breytingin kemur til framkvæmda. Er þegar hafin vinna við undirbúning þeirra breytinga.

Í frumvarpinu er einnig gert ráð fyrir að í lög um málefni aldraðra verði sett sams konar heimild til handa vistmönnum varðandi dreifingu séreignarlífeyrissparnaðar og fjármagnstekna og gilda um lífeyrisþega samkvæmt lögum um almannatryggingar. Eins og áður hefur komið fram mun séreignarsparnaðurinn ekki hafa áhrif við útreikning bóta eða vistunarframlags frá og með næstu áramótum en áfram verður heimilt að dreifa fjármagnstekjum. Þykir rétt að lögfesta slíka heimild handa vistmönnum þegar um er að ræða fjármagnstekjur sem hafa verið leystar út í einu lagi líkt og gildir um lífeyrisþega.

Nokkrar nauðsynlegar lagfæringar eru gerðar á ákvæðum vegna efnislegra breytinga. Tilvísanir í tekjur maka eru teknar út þar sem það á við og sú sérregla um útreikning tekjutryggingar sem fram kemur í 5. mgr. 22. gr. almannatryggingalaga og sett var með lögum nr. 3 og 9 2001 í framhaldi af öryrkjadómnum svokallaða, er afnumin. Þetta er mjög til einföldunar fyrir lífeyrisþega og við framkvæmd Tryggingastofnunar ríkisins. Þá eru í frumvarpinu tekin af öll tvímæli um að aldurstengd örorkuuppbót skuli ekki skerðast vegna tekna lífeyrisþega.

Virðulegi forseti. Ég hef fjallað um helstu breytingar sem í frumvarpinu felast og undirstrika að í því eru ákvæði sem stuðla að bættum kjörum aldraðra og öryrkja og eru til nokkurrar einföldunar á almannatryggingakerfinu en að því er stefnt í framhaldsvinnu með almannatryggingakerfið. Ég vil jafnframt leggja mikla áherslu á að þeirri nefnd sem ég skipaði á síðasta ári verði falið að skila mér samræmdum tillögum fyrir 1. nóvember á þessu ári varðandi heildarendurskoðun almannatryggingalöggjafarinnar er miði að einföldun hennar. Ég geri ráð fyrir að við séum sammála um nauðsyn þess að sú vinna fari fram og oft hefur komið fram í umræðu á Alþingi að núverandi kerfi sé allt of flókið og full þörf á því að einfalda það. Ég mun halda áfram að beita mér fyrir úrbótum í lífeyristryggingakerfinu sem leiði til bættra kjara fyrir lífeyrisþega og jafnframt til réttlátara og einfaldara kerfis. Þetta er eitt af þeim forgangsmálum sem ég legg áherslu á og ég er afar þakklát fyrir að fá að kljást við þetta mikilvæga en flókna verkefni.

Ég læt þessari yfirferð yfir efni frumvarpsins og einstök ákvæði þess lokið og legg til að frumvarpinu verði vísað til hv. félags- og tryggingamálanefndar og til 2. umr.