135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

almannatryggingar.

410. mál
[13:47]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að lýsa yfir ánægju okkar þingmanna Frjálslynda flokksins með að þetta mál skuli koma hér fram og að verið sé að stíga þau skref sem í frumvarpinu eru. Ég bendi hins vegar á að þetta frumvarp er í mörgum atriðum samhljóða frumvarpi sem við þingmenn Frjálslynda flokksins fluttum á síðastliðnu hausti, þskj. 10 og 10. mál þingsins, og rætt var á hv. Alþingi en bíður núna afgreiðslu í félags- og tryggingamálanefnd. Að sjálfsögðu munum við fara fram á það að þessi mál verði rædd saman þar sem þau eru að mörgu leyti keimlík þó að þau séu ekki í öllum tilfellum alveg eins. Í sumum tilfellum lögðum við til að gengið væri lengra á þessu þingi en lagt er til í frumvarpi hæstv. ráðherra.

En allt að einu þá endurtek ég að við fögnum því frumvarpi sem hér er fram komið og teljum að um verulegan áfanga sé að ræða. Hér er m.a. lagt til að fella algjörlega niður tengingar við tekjur maka sem er nákvæmlega sama tillaga og við lögðum til síðastliðið haust. Einnig er verið að taka á þeim atriðum sem við lögðum réttilega til um séreignarsparnaðinn, að hann hefði ekki nein skerðingaráhrif og er það lagt til í þessu frumvarpi. Vissulega eru því áfangar í þessu máli sem eru með nákvæmlega sama sniði og málatilbúnaður okkar í Frjálslynda flokknum var fyrr á þessu þingi og eins og við töluðum reyndar fyrir í kosningabaráttunni á síðastliðnu vori. Við getum þess vegna ekki annað en glaðst yfir þessu og erum ánægð með þau verk sem hér eru að líta dagsins ljós. Hins vegar er rétt að fara nokkrum orðum um þetta frumvarp, einkum til að draga fram ýmis atriði sem í því eru eða eru þar ekki, hæstv. forseti.

Í fyrsta lagi má benda á, og væri kannski rétt að hafa það í huga við afgreiðslu málsins úr nefnd áður en það kemur aftur til umfjöllunar í hv. Alþingi, að ef ég man rétt, ég er reyndar ekki með þann dóm fyrir framan mig, féll nýverið dómur í Hæstarétti þar sem einstaklingur vildi sækja þann rétt að lífeyrissparnaður væri skattlagður eins og fjármagnstekjur, með 10% skatti. Ef ég man niðurstöðuna rétt var hún sú að Hæstiréttur taldi að ekki væru rök fyrir því þar sem lífeyrissparnaður í almennum lífeyrissjóðum væru atvinnutengdar tekjur. Þá hlýtur að vakna sú spurning þegar hér er lagt til frítekjumark fyrir 67–70 ára upp að 100 þús. kr. á mánuði í atvinnutekjum, hvort líta eigi svo á, miðað við túlkun Hæstaréttar, að lífeyristekjur úr almennum lífeyrissjóðum séu líka atvinnutekjur í þessu tilviki. Þetta er vafaatriði sem nefndarmenn verða að fara yfir og svara. Af sjálfu leiðir finnst mér, úr því að Hæstiréttur dæmir það svo að menn eigi alls ekki rétt á að lífeyrissparnaður eða ávöxtun hans sé skattlögð sem fjármagnstekjur heldur séu þetta atvinnutengdar tekjur sem myndist vegna inngreiðslu í almenna lífeyrissjóði af atvinnutekjum, að þá hljóti þær tekjur að flokkast sem slíkar þó að þær komi síðar til greiðslu vegna þess að þær hafa verið lagðar til hliðar í sparnaðarformi, þ.e. inn í almenna lífeyrissjóði.

Þetta er eitthvað sem við þurfum að skoða en hér er hins vegar enn verið að útfæra atriði sem er ekki samhljóða því sem við lögðum til í Frjálslynda flokknum á síðastliðnu hausti og það er að verið er að hækka frítekjumarkið hjá ellilífeyrisþegum, og öryrkjum reyndar líka sem aftur hafa val um 60% o.s.frv., úr 25 þús. í 100 þús. kr. á mánuði. Á vordögum voru svo sett lög, eins og menn væntanlega muna, þess efnis að þegar að einstaklingur er orðinn sjötugur má hann hafa eins miklar tekjur og hann vill án þess að fá neina skerðingu. Sá sem hér stendur flutti þá um það tölu, m.a. í þessum ræðustól, að eðlilegt væri að taka frekar það skref í áföngum og láta það ná jafnt til allra og stefna að því að atvinnutekjur væru almennt ekki skerðingarvaldur á bætur frá almannatryggingum þegar fólk væri orðið 67 ára að aldri fremur en að taka upp þessa mismunun við 70 ára aldurinn, að þá megi menn hafa eins miklar tekjur og þeir vilja og síðan sé ákveðið tekjumark. Samt er það auðvitað til bóta sem hér er verið að gera þegar hækka á frítekjumarkið úr 25 þús. kr. í 100 þús. kr. á mánuði. Að sjálfsögðu er það til verulegra bóta. Væntanlega mun þetta verða til þess að eldri borgarar sækja meira út á vinnumarkaðinn en verið hefur og það er líka til bóta, einfaldlega vegna þess að starfandi maður, kona eða karl, er þá virkur í þjóðfélaginu sem slíkur og væntanlega bætir það heilsu hans og lífsánægju að fá að starfa eins og hver annar á vinnumarkaðnum. Þessi atriði eru vissulega til bóta eins og þau eru sett fram í frumvarpinu en ég vek hins vegar athygli á þessu.

Hins vegar er hér lagt til að sett verði sérstakt frítekjumark á lífeyrissjóðstekjur örorkulífeyrisþega upp að 300 þús. kr. á ári án þess að til skerðingar á tekjutryggingu þeirra komi. Ég segi og endurtek það, hæstv. forseti, að ég held að rétt hefði verið að hafa þarna jafnræði milli fólks sem á réttindi í almennum lífeyrissjóðum og að þau skref sem verða stigin nái til allra. Ég minni enn á fyrrnefndan hæstaréttardóm, sem ég held að ég muni rétt hvernig fór, og fer fram á að hann verði skoðaður í viðkomandi nefnd með tilliti til þess sem hér á að lögfesta og hvernig eigi þá að túlka tekjur úr almennum lífeyrissjóðum með tilliti til þess dóms.

Þá á að taka upp frítekjumark hvað varðar fjármagnstekjur, þ.e. 90 þús. kr. á mánuði. Það er af hinu góða og einfaldar væntanlega kerfið og framkvæmd þess alla hjá Tryggingastofnun þegar verið er að reikna út tekjur eldri borgara og þar af leiðandi fækkar vonandi þeim leiðréttingum sem þurft hefur að gera í kerfinu á undanförnum árum og valdið hafa miklum deilum eins og allir vita. Vafalaust er verið að bregðast við því hér að stórum hluta. Ég held að ég hafi tekið rétt eftir því áðan að hæstv. ráðherra segði að þetta næði til 90 eða 95% þeirra sem teldu fram fjármagnstekjur. Hér er væntanlega verið að einfalda kerfið og gera það skilvirkara auk þess sem verið er að færa mönnum þá kjarabót að fjármagnstekjur undir 90 þús. kr. hafi ekki skerðingaráhrif. Það er vissulega áfangi.

Lagt er til í frumvarpinu hvað varðar atvinnutekjur elli- og örorkulífeyrisþega að menn hafi val um hvort þeir vilji nota sér hina svokölluðu 60% reglu eða þá heimild að mega hafa 100 þús. kr. tekjur á mánuði án þess að það valdi skerðingu eftir því hvort hagstæðara er. Það er að sjálfsögðu ekkert við þá útfærslu að athuga þegar taka á þau skref sem hér eru lögð til.

Í 7. gr. er boðið upp á aðstoð við útreikninga og það er sjálfsagt full þörf á því. Mikið hefur verið kvartað undan því að tryggingabótakerfið væri flókið, að útreikningar þar væru flóknir og vissulega er það svo. Það þarf að hafa fyrir því að skilja þetta kerfi og fara í gegnum það og þar af leiðandi er gott að boðið sé upp á aðstoð við útreikning, hvort kæmi elli- og örorkulífeyrisþegum betur miðað við þær heildartekjur sem þeir geta haft á ársgrundvelli. Þannig að það er vissulega til bóta við þessa framkvæmd þegar menn eru að breyta þessum flóknu lögum. Því þau eru vissulega flókin.

En ég vek athygli á því, hæstv. forseti, að þó að hér sé verið að miða við 100 þús. kr. tekjur, sem er til bóta, þá erum við enn þá með þessa mismunun milli 67–70 ára og þeirra sem eru orðnir 70 ára sem mega hafa hvaða tekjur sem er án þess að fá skerðingar. Ég hygg reyndar að við hljótum að vera á þeirri vegferð að stíga þetta skref til framtíðar þannig að atvinnutekjur eldri borgara verði ekki til skerðingar á bótum þeirra. Hér er líka verið að laga örlítið hlutfallið varðandi ellilífeyrinn sem kallaður er svo, en heitir nú grunnlífeyrir í kerfinu að mig minnir, með því að lækka skerðingarhlutfall ellilífeyris úr 30% í 25.

Ég minni hins vegar á að eldri borgarar hafa verið með mjög stífar kröfu um það á undanförnum árum að grunnlífeyririnn yrði aldrei skertur. Það hefur verið mjög stíf krafa af þeirra hendi að þeir héldu alltaf þeirri upphæð sem er 25 eða 26 þús. kr. á mánuði, að hún tæki engum skerðingarreglum. En skerðingarreglan á grunnlífeyrinum er lægri en almenna skerðingarreglan í tryggingakerfinu sem er núna 39% eða eitthvað svoleiðis, þ.e. á tekjutryggingu og aðrar bætur sem koma ofan á grunnlífeyrinn. Þarna er vissulega verið að lagfæra örlítið, það er verið að minnka skerðinguna um 5% og það er skref í áttina. En ég minni á að krafa eldri borgara hefur verið mjög ákveðin í þá veru að allir héldu grunnlífeyrinum.

Loks er hér sérstök regla sem sett er um aðlögun varðandi innlausn á fjáreignum, þ.e. að þegar menn selja eða innleysa eignir og við það myndast fjármagnstekjur sem leystar eru út á einu ári þá er hægt að dreifa þeirri skattlagningu á 10 ár. Það er vissulega til bóta og tel ég að þar sé verið að koma verulega til móts við eldri borgara í þessu tilliti.

Hæstv. forseti. Þetta vildi ég segja um þetta frumvarp og endurtek það í lokin að af sjálfu leiðir að við þingmenn Frjálslynda flokksins fögnum því að þetta mál skuli vera komið fram. Við væntum þess að þetta sé vegferð á þeirri leið sem við teljum að stefna eigi að hvað varðar jöfnuð allra eftir 67 ára aldur, allra eldri borgara sem afla sér tekna og fá skerðingar og eins að menn horfi til framtíðar að því er varðar sparnað í almennum lífeyrissjóðum, að lífeyrissparnaðinn valdi ekki þeirri skerðingu sem hann gerir í dag. Í því sambandi er auðvitað hægt að minna aftur á að þegar er búið að setja inn frítekjumark á almennan lífeyrissparnað öryrkja og hvers vegna setjum við þá ekki svipaða upphæð gagnvart lífeyrisþegum almennt, 300 þús. kr. frítekjumark sem þar er sett á lífeyrissjóðstekjur? Því miður er það enn þá svo í þjóðfélagi okkar að til er fólk sem á ekki rétt á hærri bótum úr lífeyrissjóði en 10–11 þús. kr. á mánuði. Það er ótrúlegt en það er enn hægt að finna dæmi um það. Það mundi vissulega muna um það fyrir það fólk sem á sáralítil lífeyrisréttindi að hafa þetta 300 þús. frítekjumark kr. almennt fyrir alla en ekki aðeins öryrkja.