135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

almannatryggingar.

410. mál
[14:11]
Hlusta

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég fagna allri umræðu um almannatryggingakerfið og tek undir að rétt er að einfalda kerfið. Að minnsta kosti er nauðsynlegt að minnka flækjustigið svo við sem erum öryrkjar og eins ellilífeyrisþegar getum kynnt okkur og þekkjum réttindi okkar. Það eitt og sér er ákveðin kjarabót.

Það er ýmislegt mjög gott, finnst mér, í því frumvarpi sem hér liggur fyrir og vil ég þar helst nefna afnám tekjutengingar við tekjur maka sem eykur náttúrlega fjárhagslegt sjálfstæði lífeyrisþega til muna og gerir það að verkum að bótaþegi er ekki upp á maka sinn kominn þegar kemur að framfærslu. Þetta er alveg gríðarlega mikið réttlætismál.

Eins fagna ég því að hækka eigi aldurstengdar örorkubætur, auk þess sem ég tel að það sé mjög gott að það er stærra aldursbil sem kemur til með að njóta fullra aldurstengdra bóta og svo er hér um verulega hækkun á frítekjumarki ellilífeyrisþega að ræða sem ég held að sé einnig mjög gott.

Það vantar hins vegar, finnst mér, í þetta frumvarp og ég finn hér ekkert um það að þeir sem notið hafa aldurstengdrar uppbótar haldi þeim réttindum eftir að 67 ára aldri er náð. Mér finnst nauðsynlegt að því verði bætt inn í því oft er sagt að eftir því sem aldurinn færist yfir þá fatlist fólk bara við það eitt að verða aldrað. En ég held að þetta snúist alla vega mjög sjaldan við. Þegar fatlað fólk eldist þá hættir það ekki að vera fatlað við það eitt að verða 67 ára og því er nauðsynlegt að aldurstengda uppbótin fylgi fólki áfram eftir að það er orðið gamalt.

Svo sakna ég þess líka að sjá ekki í þessu frumvarpi hækkun á frítekjumarki öryrkja. Það er vissulega boðað að ekki sé hækkun á sama hátt og hjá ellilífeyrisþegum. Þótt það sé vissulega boðað að þetta mál verði skoðað áfram þá finnst mér ekkert í hendi með það og öryrkjar fá alla vega ekki salt í grautinn og fleiri peninga í hendurnar með þessum breytingum einum og sér. En vonandi koma þeir í framtíðinni. Ég hefði helst viljað sjá það líka núna 1. apríl.

Að lokum fagna ég þeirri yfirlýsingu hæstv. ráðherra að breytingar á almannatryggingakerfinu verði unnar í samráði við hagsmunasamtök öryrkja. Ég er sannfærð um að þannig séu mestar líkur á að breytingarnar verði öryrkjum til sem mestra hagsbóta og um leið samfélaginu öllu.