135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

almannatryggingar.

410. mál
[14:15]
Hlusta

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, og lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999. Frumvarpið er í samræmi við það sem boðað var í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá því í desember sl. þar sem tilkynnt var um að lögfestar yrðu ýmsar breytingar sem kæmu til framkvæmda í áföngum á árunum 2008–2010.

Þarna er um að ræða margar mjög mikilvægar breytingar sem bæta munu kjör og hag eldri borgara og öryrkja til muna. Á undanförnum árum hafa kjör þessara hópa verið mikið til umræðu og víst er að þar er mikið verk óunnið. Hins vegar má ekki gleyma því að margt hefur verið gert á liðnum árum með bættan hag lífeyrisþega að leiðarljósi og þetta frumvarp er enn eitt skrefið í þá átt að bæta það frekar. Ég get til að mynda minnt á samkomulag ríkisstjórnarinnar við eldri borgara í kjölfar tillagna svonefndrar Ásmundarnefndar á árinu 2006 sem hafði talsverðar kjarabætur í för með sér, bæði hvað varðar bótagreiðslur og húsnæðisúrræði fyrir lífeyrisþega.

Málefni lífeyrisþega eru sett í öndvegi þessarar ríkisstjórnar og í stefnuyfirlýsingu hennar er lögð áhersla á að styrkja stöðu aldraðra og öryrkja með því að draga úr tekjutengingum og skerðingum bóta í almannatryggingakerfinu. Þar segir einnig að unnið verði að einföldun almannatryggingakerfisins og að sérstaklega verði skoðað samspilið milli tryggingabóta, greiðslna úr lífeyrissjóðum og atvinnutekna einstaklinga. Þar eru nefnd einstök atriði svo sem frítekjumark vegna atvinnutekna fyrir aldurshópinn 67–70 ára, skerðingar vegna tekna maka o.fl. Frumvarpið tekur á mörgum ef ekki flestum þeirra atriða sem tiltekin eru í stjórnarsáttmálanum og því ber að fagna.

Strax í haust var skipuð verkefnisstjórn á vegum hæstv. félagsmálaráðherra um endurskoðun almannatryggingakerfisins sem hefur tvíþætt markmið, að setja fram tillögur um fyrstu aðgerðir, sem þetta frumvarp er byggt á, og að skila tillögum um heildarendurskoðun almannatryggingakerfisins fyrir 1. nóvember á þessu ári. Ég get staðfest, þar sem ég á sæti í þessari verkefnisstjórn, að hún hefur unnið mjög ötullega undir forustu Sigríðar Lillýjar Baldursdóttur, forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins, og nefndin skilaði, eins og áður segir, tillögum 1. desember sem frumvarp þetta byggir á. Þær tillögur eru allar ágætar og góðra gjalda verðar en stóra verkefni nefndarinnar er að sjálfsögðu að endurskoða kerfið í heild sinni. Það er ekki auðvelt verkefni þar sem gerðar hafa verið endalausar breytingar á því í gegnum tíðina. Eftir stendur kerfi sem allir geta sammælst um að er stagbætt og óskiljanlegt mjög mörgum, eins og fram kom í máli síðasta ræðumanns.

Ég held að ef við ætluðum að setja á fór almannatryggingakerfi í dag mundum við örugglega ekki notast við núverandi kerfi, með allri virðingu þó fyrir því, og þar reyna allir að vinna eins vel og hægt er. Ég geri mér líka grein fyrir því að það er heldur ekkert auðvelt verkefni en ég hef talað fyrir því að við byrjum einfaldlega upp á nýtt, að við tökum fæðingarorlofskerfið, sem við ræddum hér fyrr í dag, til fyrirmyndar. Í stað þess að gera endalausar betrumbætur á gamla kerfinu, sem alltaf hafa einhverjar hliðarverkanir í för með sér, þá ættum við hreinlega að byrja á núlli, ef svo mætti segja. Ég hef talað fyrir því að við hönnuðum nýtt kerfi þar sem við settum fram þau markmið sem við viljum ná fram og við gerðum það alveg örugglega með miklu einfaldari hætti. Síðan væri hægt að hugsa einhvers konar sólarlagsákvæði þar sem hægt væri að „fasa“ þetta inn. Þetta er ekkert einfalt og eflaust margir hnökrar á því en ég held að þetta sé það eina sem getur orðið til þess að við fáum á endanum kerfi sem um ríkir sátt eins og ríkir um fæðingarorlofskerfið í dag.

Ég held að allir græði á þessu, við hefðum öll miklu betri yfirsýn yfir kerfið og ég er fullkomlega sannfærð um að fjármunum ríkisins yrði betur varið vegna þess að við næðum fram skilvirkari greiðslum. Við næðum kannski einnig betur til þeirra sem þurfa á aðstoðinni að halda. Þetta er því sjónarmið sem mér finnst vert að skoða en ég geri mér grein fyrir að það er ekki til umræðu hér í dag. Ég held því áfram að tala fyrir þessu sjónarmiði í verkefnisstjórninni.

Aftur að frumvarpinu. Ég ítreka að ég fagna þeim breytingum sem hér eru lagðar til og ég tel þetta mjög mikilvægt skref í rétta átt. Ég ætla ekki að fara að rekja einstök atriði ítarlega, það hefur verið gert í máli hæstv. ráðherra og annarra ræðumanna hér, en mig langar aðeins að nefna örfá atriði.

Á sumarþinginu sl. vor var stigið fyrsta skrefið þegar tekjutenging launatekna 70 ára og eldri við lífeyri almannatrygginga var að fullu afnumin. Það fannst mér mjög mikilvægt skref og í fullu samræmi við mína lífsskoðun að það eigi að vera einstaklingurinn sjálfur sem velji það hvort og hvenær hann hætti að vinna ef hann er hress og kátur. Ég get ekki annað en horft á hv. þm. Ellert B. Schram þegar ég segi þessi orð, virðulegan fulltrúa eldri borgara hér (Gripið fram í.) þó að það sjáist nú ekki á honum. (Gripið fram í.) Alla vega finnst mér það mjög mikilvægt og þess vegna fagna ég því að lagt er til 100 þús. kr. frítekjumark 67–70 ára á atvinnutekjur þeirra sem gerir þeim kleift að stunda meiri vinnu ef þeir kjósa svo. Við verðum nefnilega að hugsa þetta allt í einstaklingsmiðuðum lausnum, við getum ekki endalaust talað um eldri borgara sem einhvern hóp vegna þess að við vitum öll að einstaklingar sem mynda þann hóp eru eins ólíkir og fólk á öllum aldri. Þess vegna fagna ég líka afnámi makatenginganna vegna þess að þar er þessi sama hugsun. Þar horfum við á einstaklinginn hvern fyrir sig.

Ég vil líka nefna að þarna er verið að leggja til að skerðing lífeyrisgreiðslna vegna séreignarsparnaðar verði afnumin frá 1. janúar 2009. Það tel ég líka vera mikilvægt skref og ekki síst sem skilaboð til þeirra sem eru að búa í haginn og leggja til hliðar til efri áranna. Ég tel víst að það hafi ekki verið vilji löggjafans á sínum tíma þegar séreignarsparnaðurinn var settur á fót að greiðslur úr almannatryggingakerfi eða annars staðar frá ættu að skerða hann. Hann var alltaf hugsaður sem hvatning til sparnaðar og fyrirhyggju. Þess vegna fagna ég því mjög að fólki sé ekki refsað fyrir ráðdeild, sem ég tel vera mjög öfugsnúið.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um frumvarpið. Þetta er gott frumvarp og ég hlakka til að sjá hvernig því vindur fram hér á Alþingi.