135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

almannatryggingar.

410. mál
[14:44]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf):

Hæstv. forseti. Hér er verið að fjalla um frumvarp til laga um breytingar á lögum um almannatryggingar. Þetta er stórt mál og afar þýðingarmikið. Þetta þingmál snertir í raun og veru einn af hornsteinum samfélagsins, velferðarsamfélagsins eins og við öll viljum hafa það.

Ég held að það sé rétt sem kemur fram í máli hv. þm. Ragnheiðar Árnadóttur að þegar við erum að tala um eldri borgara er ekki alltaf sambærilegt gamall maður og gamall maður, það eru mjög mismunandi kjör sem fólk býr við. Það kerfi sem hér er til umræðu, kerfi almannatrygginganna, er náttúrlega fyrst og fremst hugsað og á að starfa í þeim anda sem hv. þm. Ármann Ólafsson fjallaði um áðan, þ.e. að einbeita sér að þeim einstaklingum, þeim eldri borgurum sem þurfa á aðstoð samfélagsins að halda. Hér stendur maður sem er orðinn eldri en 67 ára og hefur ágætistekjur, þar af leiðandi geri ég enga kröfu til þess að taka fé út úr samfélagslegum sjóðum af þessu tagi og fer ekki fram á það. Kerfið á að vera fyrir þá sem bera minna úr býtum og hafa minni tekjur og þannig á það að vera hugsað, samfélagið á að láta fé af hendi rakna til að styrkja fólk, veita félagslega aðstoð og auka lífsgæði þess fólks sem á þarf að halda og hefur borið lægri hlut frá borði í lífi sínu.

Ég leyfi mér í allri hógværð að lýsa því yfir að ég tel það mál sem hér er lagt fram afar merkilegt og stórt skref í átt að réttarbótum ef svo má segja, lagabótum í þessum málaflokki. Við gerum okkur grein fyrir því bæði með því að lesa þetta frumvarp og með því að rifja upp þær lagfæringar sem voru gerðar í tíð fyrri stjórnar að kerfið er náttúrlega allt í lamasessi, fullkomnum ólestri og það er þvílíkt völundarhús að það er nánast enginn sem skilur það, svo það er sannarlega kominn tími á rækilega endurskoðun hvað það varðar. Ég lít á þetta frumvarp sem fyrsta skref hæstv. núverandi ríkisstjórnar til þess að hefja slíka vegferð og ég held að það sé ástæða til þess að fagna því að fólk hefur skilning á því.

Þegar ég segi að kerfið sé í lamasessi þá er það því miður einkunn og dómur um þá sem hér hafa farið með völd í langan tíma, kerfið hefur drabbast niður. Að því leyti er tími til kominn að menn láti hendur standa fram úr ermum, ég bind vonir við að þetta sé aðeins vísir að því sem koma skal. Ég minni á að nú í þessari viku gaf hæstv. ríkisstjórn út yfirlýsingu sem m.a. fól í sér loforð um að kerfið yrði endurskoðað og bætt og ég vísa líka til þess að hæstv. félagsmálaráðherra hefur nú þegar skipað nefndir, fleiri en eina og fleiri en tvær, til þess að endurskoða kerfið. Það getur vel verið að það sé alveg rétt að byrja á núlli, eins og hv. þm. Ragnheiður Árnadóttir lagði til áðan, að það væri byrjað á því að hanna gjörsamlega nýtt kerfi vegna þess að það rekst hvað á annars horn í þeirri löggjöf sem við búum við í dag. Í þessu frumvarpi er verið að greiða úr þeim flækjum að litlu leyti og það er vel svo langt sem það nær. Að því leyti gleðst ég innilega yfir framlagningu frumvarpsins og ráðagerðum hæstv. ríkisstjórnar en ég geri mér líka grein fyrir því að það er margt enn þá sem þarf að lagfæra í næstu framtíð.

Hvað þetta tiltekna frumvarp varðar sem hér er til meðferðar geri ég ýmsar athugasemdir eða kem fram með ábendingar án þess að ég sé að fetta fingur út í það að frumvarpið sem slíkt verði samþykkt, ég er aðeins að benda á það að hér er ýmsu ábótavant. Ég tel það vera ljóð á ráði þessarar löggjafar að enn sé verið að skilgreina 67–70 ára aldur í sérstakt hólf. Það var búið að taka ákvörðun um það á Alþingi, á síðasta sumri, að 70 ára og eldri þyrftu ekki að gjalda skerðingar þó að þeir hefðu aðrar atvinnutekjur og ég held að það sé eðlilegt og sjálfsagt að þetta mark verði fært niður í 67 ára aldurinn í stað þess að vera að hafa eitthvert millibil frá 67 til 70 ára og svo komi annars konar reglur beggja megin við þann aldur.

Ég hef líka fullan skilning á því að enn sé verið að skoða þá yfirlýsingu og loforð ríkisstjórnarinnar um að greiða 25 þús. kr. úr lífeyrissjóðum til þess fólks sem einungis hefur strípaðar tekjur úr bótakerfinu vegna þess að sú yfirlýsing er þeim annmarka háð að með skerðingum og sköttum verða þessar 25 þús. kr. ekki nema 8 þús. kr. Ég hef frá upphafi haft litla samúð með þessu og því haft skilning á þessari tillögu og ég ítreka það enn að mér finnst það ekki óeðlilegt þó að þetta vefjist fyrir stjórnvöldum. Ég hefði haldið að það mætti nálgast þetta viðfangsefni með öðrum hætti.

Ég geri það líka að umtalsefni sem hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson gerði hér áðan að því er varðar það misrétti sem ég kalla svo, sem felst í því að skerðingar og skattar koma enn fram í kerfinu eftir því hvers eðlis tekjur eldri borgara og lífeyrisþega eru. Nú er búið samkvæmt þessu frumvarpi að samþykkja að séreignarsparnaður skerði ekki tekjur úr kerfinu og út af fyrir sig er það í lagi. Hvers vegna skyldi þá vera um skerðingu að ræða þegar annars konar sparnaður á sér stað, þ.e. lífeyrissjóðsgreiðslurnar, sem eru auðvitað ekkert annað en sparnaður og meira að segja lögskyldur sparnaður, af hverju er það skert? Hvaða munur er á því hvort sparnaður eigi sér stað af frjálsum vilja eða þegar fólk er skyldugt til þess að leggja peninga til hliðar? Ég held að það væri jafnvel enn fremur ástæða til þess að hafa skilning á þeim sem eru skyldugir til þess að leggja sparnaðinn til hliðar og láta þá ekki þurfa að gjalda skerðingarinnar, fyrir utan þá ósanngirni sem enn er við lýði, þ.e. að fólk býr við það annars vegar að borga 35,7% tekjuskatt af lífeyrissjóðsgreiðslum en hins vegar ekki nema 10% fjármagnstekjuskatt af arði eða vöxtum af eigin sparnaði. Það er ekki tekið á þessu máli í frumvarpinu af eðlilegum ástæðum vegna þess að það fellur ekki undir Tryggingastofnun ríkisins eða almannatryggingar sem slíkar. Það hefur ekki enn þá verið tekið á þessu máli í aðgerðum hæstv. ríkisstjórnar en það breytir ekki því að ég hef enn þá skoðun að þetta sé brýnt hagsmunamál og þurfi að leiðrétta. Vægi þessa atriðis er kannski minna núna eftir þá yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamningana að skattleysismörk hækki, væntanlega allt upp í 120 þús. kr. á þessu kjörtímabili. Það hjálpar mikið til en það er ekki leiðrétting á augljósu ranglæti.

Frú forseti. Ég veit ekki hvað ég hef mikinn tíma hér til þess að fjalla frekar um þetta frumvarp. Aðalatriðið er að frumvarpið liggur fyrir, það verður væntanlega afgreitt og það er fyrsta útspil hæstv. ríkisstjórnar í því að reyna að endurskoða og endurbæta það flókna og að mörgu leyti rangláta og ósanngjarna kerfi sem nú er við lýði. Ég vona að við getum unnið þetta vel og fljótt og ég heyri það af ræðum sem hér hafa verið haldnar í umræðunni að um það er almenn sátt og skilningur hjá hv. alþingismönnum að það sé þjóðþrifamál að taka fyrir og laga mál í þessum ranni.