135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

almannatryggingar.

410. mál
[15:11]
Hlusta

Ármann Kr. Ólafsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Jón Magnússon spurði hvort ég teldi að frumvarpið væri of dýrt fyrir ríkissjóð eða hvort ég ætti við að almennt ætti að standa öðruvísi að því og hvort ég væri með fyrirvara. Því er til að svara að ég tók það sérstaklega fram í ræðu minni að ég styddi frumvarpið. Frumvarpið eitt og sér mun ekki beygja ríkissjóð.

Hins vegar vék ég almennt að þeirri staðreynd að verið væri að auka útgjöld ríkissjóðs, ekki með þessu frumvarpi einu og sér, upphæðin mun ekki sliga ríkissjóð. En sem dæmi má nefna að þeir kjarasamningar sem verið var að skrifa undir, munu kosta ríkissjóð 20 milljarða. Það á eftir að gera kjarasamninga á opinbera markaðnum. Það hafa verið frumvörp hér inni í þinginu sem kostað hafa talsverðan útgjaldaauka og á sama tíma benti ég á að við höfum þurft að skera niður 60 þús. tonn af þorski, að búið væri að aflýsa loðnuveiðum — vonandi þó bara í bili — en eins og staðan er núna er ekkert útlit fyrir að við veiðum meiri loðnu. Bankakerfið stendur mun verr nú en í síðustu ár og ég benti bara á að meðan tekjur dragast saman er ákveðin hætta því fylgjandi að auka eyðsluna mjög mikið. Þetta er einföld heimilishagfræði sem ég held að þingmenn almennt ættu að horfa á þegar verið er að auka útgjöld. Það tengist ekki beint þessu frumvarpi einu og sér (Forseti hringir.) eins og ég sagði.