135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

almannatryggingar.

410. mál
[15:13]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að ég áttaði mig ekki alveg á því hvað hv. þm. Ármann Kr. Ólafsson átti við þegar hann sagðist styðja frumvarpið. Síðan bendir hann á útgjaldaaukann sem því er samfara og talar síðan um hversu bágt ástand sé að verða í þjóðfélagi okkar. Enn sem komið er, er ekki bágt ástand í þjóðfélagi okkar og að sjálfsögðu verðum við að höndla og miða við það sem við sjáum, þekkjum og skynjum — þann þjóðfélagsveruleika sem er fyrir hendi í dag.

Ég get ómögulega skilið það öðruvísi þegar hv. þm. Ármann Kr. Ólafsson kemur hér og talar um ástandið í kjölfar kjarasamninga, um hvaða útgjaldaaukningu sé þar að ræða og breytt ástand í þjóðfélaginu, en að þingmaðurinn telji að í töluvert mikið sé lagt með frumvarpi hæstv. félagsmálaráðherra og jafnvel farið á ystu brún hvað varðar útgjöld ríkisins.

Þá vil ég segja þetta: Ég tel að höfum samþykkt fjárlög þar sem að mörgu leyti er verið að eyða peningum skattborgaranna í fánýti og óþarfa en það er vilji meiri hluta Alþingis að þannig skuli staðið að málum. Það er hins vegar mjög mikilvægt og grundvöllur fyrir siðað þjóðfélag að allir borgarar eigi þess kost að búa við mannsæmandi kjör. Eins og ég lýsti því áðan eru mannsæmandi kjör ekki bara að hafa fullnægjandi húsnæði eða mat heldur einnig að geta notið eðlilegs viðurværis, geta notið lista og frístunda m.a. Það er það sem verður að gera kröfu til en mér heyrðist að það væri eitthvað sem hv. þingmaður teldi að væri ofílagt í þjóðfélagi okkar.