135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

almannatryggingar.

410. mál
[15:19]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér er talað um útgjöld og eyðslu samfélagsins. Ég vil ekki taka slík orð mér í munn heldur segja að við séum að fjalla um arð og endurgreiðslu á framlagi eldri kynslóða til þjóðarinnar.

Hv. þm. Jón Magnússon beindi til mín tveimur spurningum. Hann spurði í fyrsta lagi hvort ég teldi að hér væri verið að greiða úr flækjum í þessu kerfi. Ekki öllum en mörgum, segi ég. Um er að ræða leiðréttingu sem er fyrsti áfangi í því að reyna að hreinsa kerfið af ranglæti og mismunun. Hann spyr í öðru lagi um það hvort ég vilji að samfélagið láti meira af hendi rakna til þessa málaflokks. Ég er hreinskiptinn í því svari og segi: Já, ef á því þarf að halda er það sjálfsagt mál.

Minnst hefur verið á samþykktir og stefnu Landssambands eldri borgara sem hafa lagt áherslu á, eins og réttilega var bent á áðan, að hækka ætti grunnlífeyrinn mjög verulega og afnema alla tekjuskerðingu. Ég er andvígur þeirri stefnu. Ég segi það bara hreinskilnislega. Ég held að það sem við látum af hendi rakna inn í þetta kerfi eigi að vera, eins og ég hef margoft sagt í fyrri ræðum mínum, til þeirra sem á þurfa að halda, ekki til þeirra sem hafa betri efni. Slíkar breytingar eiga ekki að ganga upp allan stigann heldur á að einbeita sér að því að hjálpa því fólki sem hefur orðið undir í lífsbaráttunni, er komið á þennan aldur og þarf að njóta lágmarkslífsgæða eins og hér hefur verið rakið af fyrri þingmönnum.