135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

almannatryggingar.

410. mál
[15:23]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og bent var á í umræðunum fyrr í dag er þetta kerfi komið til ára sinna, frá 1936, og það hefur verið stagbætt á undanförnum áratugum. Ég er ekki að leggja til að við finnum upp nýtt kerfi en það getur verið góðs ígildi að mörgu leyti ef það er lagfært. Ég held enda að hugsunin hafi verið þá, eins og hún er í dag, að reyna að leggja fram bætur til þess fólks sem á því þarf að halda.

Mér kemur það ekkert á óvart að ég og hv. þm. Jón Magnússon séum að mörgu leyti sammála hvað þetta snertir enda báðir komnir úr sama flokki og höfum báðir þroskast til nokkurs vits. Ég geri hins vegar ágreining við hv. þingmann eða flokk hans að því leyti að hér hefur því verið lýst í umræðunni að flokkurinn taki undir stefnu Landssambands eldri borgara að því er varðar verulega hækkun á bótum, sem út af fyrir sig er réttlætismál, upp allan stigann og án tillits til tekna þeirra sem eru orðnir 67 ára og eiga rétt á ellilífeyrisbótum. Ég geri athugasemdir við þá stefnu, ef Frjálslyndi flokkurinn hefur tileinkað sér hana, af þeirri einföldu ástæðu að ég vil að það fé sem samfélagið lætur í þennan málaflokk renni til þeirra sem á því þurfa að halda, þeirra sem eru ekki með það góðar tekjur að þeir geti séð sér farborða.