135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

almannatryggingar.

410. mál
[15:28]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Tilefni þess að ég kem hér upp aftur eru orð hv. þm. Ellerts B. Schrams í þá veru að við frjálslyndir hefðum lagt til hækkun á öllum bótaflokkum. Ég sagði það ekki í ræðu minni, ég sagði hins vegar að samtök eldri borgara hefðu haft mjög sterkar kröfur uppi um það að skerðingum yrði ekki beitt á grunnlífeyrinn, að grunnlífeyririnn væri ekki skertur. Það var í sambandi við þá umræðu, sem fór fram af minni hálfu, um það sem er í frumvarpinu að lækka skerðingarregluna á grunnlífeyrinn, ellilífeyrinn gamla, úr 30% niður í 25%.

Við höfum ekki verið með neinar sérstakar tillögur um að taka þennan grunnlífeyri sérstaklega út úr og fara með hann einan og sér í einhverja sérstaka tölu. Það sem við höfum hins vegar sett saman, og reynt að draga inn í velferðarumræðuna, er sú staðreynd að við höfum lagt til sérstakan persónuafslátt í því augnamiði að tryggja að þeir sem hafa lægstar tekjurnar séu sem næst því að hafa rauntekjur sér til framfærslu. Við lögðum til að tekinn yrði upp sérstakur persónuafsláttur sem gilti bæði fyrir launþega og þá sem þiggja tekjur sínar frá Tryggingastofnun ríkisins eða úr lífeyrissjóðum að því er varðaði það að skattleysismörkin næðu 150 þús. kr., að þeir sem hefðu minna en það greiddu engan skatt.

Fyrir síðustu alþingiskosningar lagði þáverandi stjórnarandstaða fram sameiginlegt plagg um endurskoðun á lífeyriskerfinu í heild sinni. Í því máli sem hér er til umræðu lítur hluti af sameiginlegum hugmyndum okkar, Samfylkingar, Vinstri grænna og Frjálslyndra, dagsins ljós. Ég hef tekið undir það og hef talið að það sem hér er væri til framfara. Ég hef hins vegar bent á ýmis atriði og spurt um sumt. Ég hef t.d. spurt um það sem snýr sérstaklega að örorkubótunum þar sem almennir lífeyrissjóðir skerða ekki þar en það skerðist áfram hjá eldri borgurum. Ég spurði um samræmið og ég spurði hvernig menn ætluðu að taka tillit til hæstaréttardóms sem ég vitnaði til. Ég hef hann ekki undir höndum en þar var sérstök athygli vakin á því að Hæstiréttur dæmdi greiðslur úr almennum lífeyrissjóðum þannig að þær væru atvinnutengdar greiðslur, það ætti að líta á þær sem atvinnutekjur.

Ég benti hins vegar tvisvar á það í fyrri ræðu minni að eldri borgarar vildu að skerðingarreglur væru afnumdar á grunnlífeyrinn, að allir fengju grunnlífeyri. Sjálfsagt er það í því ljósi sem sú krafa hefur verið sett fram að menn séu enn þá með skerðingar vegna lífeyrisbóta. Jafnvel þó að lífeyrisþegi fái ekki nema 10 þús. kr. út úr lífeyrissjóði sínum heldur hann ekki nema sáralitlu broti eftir af þeirri krónutölu.

Ég veit að hv. þm. Ellerti B. Schram er það jafnljóst og mér að þar standa ekki eftir — af tíu þúsund kallinum út úr lífeyrissjóði, miðað við núverandi kerfi þar sem skerðingarreglan og tekjutryggingin er um 39% og skatturinn kemur þar á undan, og ef bæturnar eru ekki innan skattleysismarka — nema einhverjar 3.400–4.000 kr., af tíu þúsund kallinum úr lífeyrissjóðnum sem menn eru búnir að safna sér fyrir. Það er bara hinn kaldi veruleiki.

Við höfum því lagt til að horft verði á tryggingamálin og skattleysismörkin og þetta látið vinna saman þannig að rauntekjur fólks hækki. Á það verðum við að horfa. Við getum gert þetta með því að láta þessi kerfi spila saman en þau gera það ekki í dag. Við höfum ekki einu sinni svarað því hvernig við ætlum að fara með skattlagningu almennt á lífeyristekjur. Það eru deilur um það hvort þar eigi að vera 10% skattur eða tekjuskattur. Hæstiréttur hefur svarað því.