135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

almannatryggingar.

410. mál
[15:33]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Aðeins til að það komi skýrt fram að ég er ekki að gera hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni upp neinar skoðanir og ef ég hef eitthvað misskilið fyrri ræðu hans áðan er sjálfsagt að draga það til baka og leiðrétta það. Ég held að við séum allir það miklir jafnaðarmenn að við getum meira og minna tekið undir hana og það sé samhljómur í því sem við erum að tala um í þessum efnum.

Án þess að ég fari út í smáatriði þá er hv. þingmaður náttúrlega að benda hér á annmarka og skavanka í löggjöfinni og kerfinu sem verið er að taka á, það er verið að leiðrétta þar marga hluti og ég efast ekki um að hæstv. félagsmálaráðherra muni gera grein fyrir því á eftir hvernig framhaldið er hugsað og við getum bundið miklar vonir við það. Það hlýtur að vera megintilgangurinn með þessum málatilbúnaði að við tryggjum og innsiglum réttlæti og jafnræði í kerfinu og að peningarnir sem við höfum til aflögu úr ríkissjóði, hvort sem hann er vel stöndugur eða ekki, renni til þeirra sem þurfa á því að halda. Að því leyti er ég að gera athugasemdir við það sem hér er sagt um Landssamband eldri borgara — og ég vona að ég sé ekki að snúa neitt út úr því eða misskilja það — að þeir hafa verið á þeirri vegferð að vilja að allt kerfið hækki og greiðslurnar úr því án tillits til þeirra tekna sem viðkomandi einstaklingar hafa. Ég held að það hljóti alltaf að vera inni í myndinni að ekki þurfi að greiða bætur úr kerfinu, úr tryggingunum, til fólks eins og okkar hv. þm. Guðjóns Arnars Kristjánssonar sem hafa enn þá sem betur fer eitthvað úr að bíta.