135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

almannatryggingar.

410. mál
[15:35]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er kannski vandi að svara þessu í andsvari því að ég er að mörgu leyti mjög sammála síðasta ræðumanni og tek undir það að auðvitað ætlum við að hafa þetta kerfi þannig að við náum að tryggja þeim sem minnst hafa nægilega framfærslu. Það var markmið okkar í síðustu stjórnarandstöðu að leggja fram þingmál í þinginu sem tryggði það að við stefndum að því að allir hefðu lágmarksframfærslu. Það var inntakið í því sem við lögðum hér fram sameiginlega, Frjálslyndir, Samfylkingin og Vinstri grænir, og það sem er verið að leggja til hér og ræða er auðvitað partur af þeirri vegferð. Ég vænti þess að hæstv. ráðherra haldi áfram að koma þeim stefnumálum fram sem við lögðum sameiginlega til varðandi lífeyrismál eldri borgara og öryrkja og að hæstv. fjármálaráðherra leggi hæstv. félagsmála- og tryggingamálaráðherra lið í því að láta skattkerfið spila saman með því þannig að þeir sem minnst hafa og minnst bera úr býtum hafi nægjanlegt sér til lágmarksframfærslu. Um það hljótum við að geta verið sammála.