135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[15:55]
Hlusta

Frsm. fél.- og trn. (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir framhaldsnefndaráliti félags- og tryggingamálanefndar um frumvarp til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Málinu var vísað til nefndarinnar að nýju eftir 2. umr. og óskað eftir að ákveðnir þættir yrðu skoðaðir.

Nefndin fjallaði um frumvarpið að nýju eftir að því hafði verið vísað til hennar að lokinni 2. umr. og fékk á sinn fund Bjarnheiði Gautadóttur og Hildi Jónsdóttur frá félags- og tryggingamálaráðuneyti og Kristínu Ástgeirsdóttur frá Jafnréttisstofu.

Í framhaldi af umræðu í nefndinni voru gerðar nokkrar breytingar sem birtast á sérskjali. Í fyrsta lagi telur nefndin mikilvægt það markmið laganna í i-lið 1. gr., að vinna gegn kynbundnu ofbeldi, verði orðað þannig að unnið skuli gegn kynbundnu ofbeldi og áreitni. Í frumvarpinu eru hugtökin kynferðisleg og kynbundin áreitni tilgreind og koma þau fyrir víðs vegar í frumvarpinu. Hins vegar koma framangreind hugtök, þ.e. kynbundið ofbeldi, hvergi fram í 1. gr. frumvarpsins sem fjallar um markmið laganna og þykir nefndinni því nauðsynlegt að bætt verði úr því með fyrrgreindum hætti.

Annað atriði sem skoðað var var í tengslum við það sama. Skilgreining á kynbundnu ofbeldi kom til umræðu, eins og áður sagði, og var niðurstaðan sú að æskilegt væri að skilgreina kynbundið ofbeldi og skilgreiningu bætt inn í 2. gr. frumvarpsins þar sem það er eitt af markmiðum laganna að vinna gegn slíku ofbeldi. Sú skilgreining sem lögð var til að yrði notuð er í samræmi við yfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna um afnám ofbeldis gegn konum. Einnig þykir nefndinni brýnt að kynbundin ofbeldisbrot fari ávallt fyrir dómstóla en komi ekki inn á borð kærunefndar jafnréttismála til úrskurðar. Þetta kom í framhaldi af umræðu um það að það er almennt fjallað um að kærunefnd eigi að fjalla um ákvæði laganna en til að taka af allan vafa þá er ekki hægt að ætlast til að kærunefnd fjalli um kynbundið ofbeldi heldur fari slík mál ávallt fyrir dómstólana og kærist þá þangað beint ef um slíkt er að ræða.

Í þriðja lagi er vegna þeirra breytinga sem urðu um síðastliðin áramót á verkaskiptingu ráðuneyta vakin athygli á því að í frumvarpinu stendur hvarvetna „félagsmálaráðherra“ en ekki „félags- og tryggingamálaráðherra“ og gerð er tillaga um að þetta sé lagfært í frumvarpinu og fylgir því með sem breyting.

Í fjórða lagi var mikill tími notaður í að ræða um Jafnréttisráðið og komu þar fram ýmsar tillögur um það með hvaða hætti skyldi tilnefna fulltrúa í ráðið. Þetta hafði verið til umræðu í nefndinni áður, fyrir 2. umr., og sýndist sitt hverjum. Eftir að hafa rætt ítarlega um málið varð sátt um að rétt þætti að rannsóknarstofa í kvenna- og kynjafræðum við Háskóla Íslands ætti fulltrúa innan ráðsins og var gerð tillaga um að fulltrúi rannsóknastofunnar bætist í ráðið frá þeirri tillögu sem var til afgreiðslu í 2. umr.

Gildissvið 15. gr. frumvarpsins var jafnframt rætt. Fram kom að skýra þyrfti ákvæðið þannig að ljóst væri að það ætti ekki við um kosningar í nefndir, ráð og stjórnir á vegum hins opinbera þar sem um er að ræða kjörna fulltrúa. Þetta varðar það að ávallt skuli tilnefna bæði karl og konu þar sem óskað er eftir tilnefningum í ráð og nefndir. Það er tekinn af vafi um að ef verið er að kjósa í nefndir þá gildir þetta ákvæði ekki. En aftur þar sem óskað er eftir tilnefningum gildir það. Þar sem fyrirspurn um hvort þetta gilti um sjálft Jafnréttisráðið kom fram í umræðunni þá er það ítrekað í nefndarálitinu að ákvæði 15. gr. gildir um skipan í Jafnréttisráð.

Það komu einnig fram í umræðu um 31. gr. frumvarpsins vangaveltur um kærurétt og hvernig lögunum skyldi fylgt eftir. Eftir að hafa fjallað um þá grein var komist að þeirri niðurstöðu að ekki þyrfti að koma með athugasemdir við hana í nefndarálitinu þar sem í gildandi lögum væri að finna samhljóða ákvæði. Þannig að við breyttum ekki þeirri grein þrátt fyrir mikla umræðu um hana í nefndinni.

Samkvæmt 11. gr. frumvarpsins skal félags- og tryggingamálaráðherra innan árs frá alþingiskosningum leggja fyrir Alþingi tillögur til þingsályktunar um framkvæmdaráætlun í jafnréttismálum. Lagt er til í nýju bráðabirgðaákvæði að ráðherra leggi framangreinda þingsályktunartillögu fram í fyrsta skipti haustið 2008 á grundvelli ákvæðis 11. gr. Þetta er til þess að taka af allan vafa um hvenær vinna eigi slíka áætlun.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali, nr. 649, sem fylgir hér með. Undir nefndarálitið skrifa Guðbjartur Hannesson, formaður nefndarinnar, Ásta R. Jóhannesdóttir, Birkir Jón Jónsson, Árni Johnsen, Ármann Kr. Ólafsson, Jón Gunnarsson, Kristinn H. Gunnarsson, með fyrirvara, Pétur H. Blöndal, með fyrirvara, og Ögmundur Jónasson, með fyrirvara.

Við 2. umr. var vottun sem er í bráðabirgðaákvæði laganna töluvert rædd. Það kom ekki mikið til umræðu aftur í nefndinni. Aftur á móti er ástæða til að vekja athygli á því að í framhaldi af þessari umræðu kom fram tillaga í kjarasamningum á milli aðila vinnumarkaðarins, ASÍ og Samtaka atvinnulífsins, um að vinna að slíkri vottun. Væntanlega verður gerð frekari grein fyrir þeirri tillögu í umræðunni en því ber að fagna og það verður þá vonandi til framkvæmda í samráði við félagsmálaráðherra og félagsmálaráðuneyti eftir að lögin hafa verið afgreidd.

Ég vil að lokum þakka mjög gott samstarf um málið í félags- og tryggingamálanefnd og þann vilja sem þar hefur verið til þess að ná samstöðu um málið. Þó að skoðanir hafi verið skiptar og enginn af nefndarmönnum hafi kannski fengið allt sem hann hefði helst óskað þá náðist góð samstaða um þetta nefndarálit, framhaldsnefndarálit nefndarinnar.