135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[16:03]
Hlusta

Ármann Kr. Ólafsson (S):

Frú forseti. Hér er til umræðu framhaldsnefndarálit félags- og tryggingamálanefndar, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Formaður nefndarinnar, hv. þm. Guðbjartur Hannesson, hefur rakið það nokkuð ítarlega og þess vegna mun ég ekki fara í það sérstaklega nema kannski einn þátt þess, þ.e. þann þátt sem snýr að Jafnréttisráði. Eins og kom fram í máli formannsins var talsvert rætt um skipan Jafnréttisráðs og ýmsir töldu að Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum við Háskóla Íslands ætti að eiga þar fulltrúa.

Um Jafnréttisráðið, með leyfi forseta, segir, skv. 9. gr. frumvarpsins:

„Jafnréttisráð skal starfa í nánum tengslum við Jafnréttisstofu og vera félagsmálaráðherra og framkvæmdastjóra Jafnréttisstofu til ráðgjafar við faglega stefnumótun í málum er tengjast jafnrétti kynjanna. Sérstök áhersla skal lögð á að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði og samþættingu fjölskyldu- og atvinnulífs. Jafnréttisráð skal undirbúa jafnréttisþing í samráði við félagsmálaráðherra, sbr. 10. gr., og leggja fyrir það skýrslu um störf sín …“ — o.s.frv. varðandi hvernig greitt skuli fyrir starf í jafnréttisráði.

Af þessu má ljóst vera að Jafnréttisráð, frú forseti, mun starfa mikið með Jafnréttisstofu og því tengjast mikið starfi félagsmálaráðherra. Því áleit ég sjálfur að rétt væri að rannsóknastofa eins og þessi ætti ekki heima þarna inni. Hins vegar voru mörg rök sem komu þar á móti og var nefndinni m.a. bent á að verkefni rannsóknastofunnar væru ekki með þeim hætti að hún væri að vinna fyrir Jafnréttisstofu og Jafnréttisráð. Að því sögðu gat ég svo sem fallist á þetta en reyndar finnst mér það svolítið sérstakt. Ég hefði einmitt haldið að það væri hlutverk rannsóknastofu eins og þessarar að meta störf og árangur þess sem Jafnréttisráð fæst við, árangur þess sem Jafnréttisstofa fæst við og árangur stjórnvalda og þar með félagsmálaráðherra. Þarna er Jafnréttisráðið komið með fulltrúa frá Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum við Háskóla Íslands, sem þýðir að rannsóknastofan er þá orðin hluti af öllu heildarbatteríinu og þar með ekki hlutlægur aðili í þeim skilningi. Þar með get ég ekki séð að sjálfstæði stofunnar gagnvart þessum atriðum sé fyrir hendi. Ég gef mér þá að Jafnréttisráð, Jafnréttisstofa og ráðuneytið muni ekki geta leitað sérstaklega til rannsóknastofunnar, sem ég hefði haldið að væri eitt af því sem stofan mundi sækjast eftir.

Að því gefnu samþykkti ég stofuna inn og mun styðja þetta með þessum breytingum.