135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[16:07]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ein einföld spurning til hv. þm. Ármanns Kr. Ólafssonar um Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum. Rannsóknastofan er hvorki stjórnsýslustofnun né leyfisveitandi eða eftirlitsaðili eða neitt slíkt heldur hreinræktuð vísindastofnun, háskólastofnun sem stundar rannsóknir í kvenna- og kynjafræðum og skrifar vísindagreinar — er sem sagt einungis vísindastofnun, rannsóknastofnun eins og nafnið gefur til kynna.

Ég spyr því hv. þingmann: Hvaða tilfelli eru það sem Jafnréttisráð ætti að hans mati að leita sérstaklega til Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum með og hvernig stendur á því að hv. þingmaður lítur svo á núna að með því að rannsóknastofan sé inni í ráðinu sé hún ekki hlutlaus aðili gagnvart Jafnréttisráði? Ég átta mig ekki á því í hvaða tilfellum hv. þingmaður sér það fyrir sér að Jafnréttisráð ætti að þurfa að leita til Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum nema til að fá upplýsingar um þær rannsóknir og þann mikla fróðleik sem er til staðar innan stofnunarinnar.