135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[16:08]
Hlusta

Ármann Kr. Ólafsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa spurningu frá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur. Það er kannski einmitt þarna sem misskilningurinn lá í byrjun, ég taldi að hlutverk rannsóknastofunnar væri m.a. að rannsaka og skoða afleiðingar af því sem Jafnréttisráð og Jafnréttisstofa framkvæma. Mér er sagt að svo sé ekki og að því gefnu segi ég: Þá er það ekki á þann veg að rannsóknastofan leggi mat á störf Jafnréttisráðs, leggi mat á það sem ráðherra, Jafnréttisstofa, ráðið, jafnréttisþing o.s.frv. gerir. Þar sem um rannsóknastofu í þessum fræðum er að ræða hefði ég haldið að hún mundi rannsaka það hvað framkvæmdir stjórnvalda hefðu í för með sér. Ef svo er ekki hef ég misskilið þetta í upphafi, og segi því: Þá er augljóst að Jafnréttisráð og Jafnréttisstofa munu ekki leita eftir rannsóknum hjá þessum aðilum.

Ég nefndi hlutlægnina og á við það að ef stofan er hluti af Jafnréttisráði getur Jafnréttisráð ekki leitað til hennar, ekki til aðila sem er í rauninni í Jafnréttisráði, varðandi það hvernig til hefur tekist með eitthvað sem ráðið hefur lagt til o.s.frv. Það er nú bara það sem ég átti við.