135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[16:11]
Hlusta

Ármann Kr. Ólafsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég gerði mér vissulega grein fyrir því að fróðleikur og þekking á jafnréttismálum væri sennilega hvergi jafnmikil og hjá Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum. Hins vegar taldi ég því ekkert til fyrirstöðu, þó að hún ætti ekki fulltrúa í nefndinni, að hægt væri að leita til hennar. Mér fannst það augljóst þótt hún ætti ekki fulltrúa í nefndinni að hægt væri að leita til hennar.

Ég hélt líka að Jafnréttisráð vildi hafa þann möguleika, kannski eftir eitt, tvö eða þrjú ár, að rannsóknastofan, sem hefur þessa miklu þekkingu, stæði fyrir utan svo að hægt væri að biðja hana að leggja sjálfstætt mat á það hvernig til hefði tekist og þá gera rannsóknir á því. Að hægt væri að bera þær rannsóknir saman við aðrar rannsóknir sem aðrir hefðu gert í öðrum löndum eða rannsóknastofan hefði gert gagnvart einhverjum öðrum aðilum. En eins og þessu er stillt upp hér sé ég ekki að það sé hægt, því miður. Ég hefði haldið að það væri einmitt mikils virði að leitað yrði til þeirra þegar á þyrfti að halda, hún væri sjálfstæður aðili sem Jafnréttisráð og Jafnréttisstofa gætu leitað til til að meta hvernig til hefði tekist með einstök atriði.

Nú er búið að útiloka það, það skýrðist í umræðunni. En ég tek fram að ég hélt aldrei, og hef aldrei túlkað það þannig, að rannsóknastofan væri opinber eftirlitsaðili, ég skildi það aldrei þannig.