135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[16:22]
Hlusta

Hanna Birna Jóhannsdóttir (Fl):

Frú forseti. Hér er verið að ræða frumvarp til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Ég fagna þessari umræðu um jafnréttismál, við þokumst eitt og eitt skref í átt að markmiðinu þó svo að við okkur blasi að enn er t.d. launamisrétti á vinnumarkaði, þar þarf að herða róðurinn eins og víða í þessum málaflokki.

Ég vil sérstaklega lýsa yfir ánægju með breytingartillögu við 11. gr. í frumvarpinu en þar segir, með leyfi forseta:

„Skal félags- og tryggingamálaráðherra leggja fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum í fyrsta skipti á grundvelli ákvæðisins haustið 2008 sem gilda skal til vors 2012.“

Ég fagna þessari grein því að ég tel að framkvæmdaáætlun sé til góðs. Ég velti aftur á móti fyrir mér 8. gr. þar sem lögð er til fjölgun fulltrúa í Jafnréttisráði. Ég skil ekki hvað liggur þar að baki, frú forseti.