135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[16:24]
Hlusta

Ólöf Nordal (S):

Frú forseti. Nú er frumvarp um jafnan rétt kvenna og karla komið til 3. umr. Mikil vinna liggur að baki því, bæði á undirbúningsstigi sem og í þinglegri meðferð í vetur. Það hefur fengið góða umfjöllun og gerðar hafa verið á því jákvæðar breytingar en ég vil taka fram að málið hefur verið lengi til umfjöllunar og umræðu úti í þjóðfélaginu.

Ég ætla sérstaklega að taka til umræðu bráðabirgðaákvæði frumvarpsins um vottun. Töluvert var um það rætt í meðferð þingsins á fyrri stigum að setja inn ákvæði um að hægt væri að þróa vottunarkerfi með þeim aðferðum sem frumvarpið að öðru leyti felur í sér. Í fjórða ákvæði til bráðabirgða í lögunum segir að félagsmálaráðherra skuli sjá til þess að þróað verði sérstakt vottunarkerfi á framkvæmd stefnu um launajafnrétti, um jafnrétti við ráðningar, uppsagnir o.s.frv.

Þetta atriði hefur verið sérstaklega mikið áhugamál hjá fyrirtækjum í landinu. Samtök atvinnulífsins hafa haldið þessari aðferð á lofti. Það er mjög jákvætt þegar atvinnulífið sjálft hefur frumkvæði að aðferðum sem í þeirra huga gætu dugað til að auka jafnrétti í landinu. Þar með er ég ekki að segja að aðrar aðferðir séu ekki líka til þess bærar. En mér finnst það mjög áhugavert þegar Samtök atvinnulífsins og atvinnulífið hefur áhuga á slíkum þáttum og mjög jákvætt.

Vegna þessa máls og þeirrar umræðu sem það hefur fengið langar mig að draga fram að í þeim samningum sem nú er nýlokið, kjarasamningum milli ASÍ og Samtaka atvinnulífsins, sem ég held að hafi að mörgu leyti verið afar merkir samningar — mér fannst aðilar vinnumarkaðarins sýna mjög mikla ábyrgð gagnvart því efnahagsástandi og þeim stöðugleika sem við þurfum að ná í þjóðfélaginu, þótt auðvitað þyki sumum kannski vera gengið lengra á einu sviðinu en öðru, ég ætla ekki að leggja neitt mat á það. Aðalatriðið er að samningar náðust nokkuð hratt og ég held að þeir muni reynast okkur vel á þeim mánuðum og árum sem fram undan eru.

Í tengslum við samningana var gerð bókun um jafnréttisáherslur. Mér þykir ánægjulegt að samkomulag skuli hafa tekist milli aðila vinnumarkaðarins og mig langar í þessari umræðu til að lesa þessa bókun upp eins og hún er samþykkt af aðilum vinnumarkaðarins, með leyfi forseta:

„Jafnir möguleika kvenna og karla til starfa, starfsþróunar og launa er hagsmunamál launafólks og fyrirtækja. Aðilar munu því vinna saman að eftirtöldum verkefnum á samningstímanum. Þróað verði vottunarferli sem fyrirtæki geta nýtt sér og fela í sér vottun á framkvæmd stefnu um launajafnrétti og jafna möguleika kynjanna til starfa og starfsþróunar. Gerð verði úttekt á launamyndun á vinnumarkaði með sérstöku tilliti til launamyndunar kvenna og karla. Sérstaklega verði kannað samstarf við Hagstofu Íslands um rannsókn á launamyndun kvenna og karla á grundvelli gagnasafns Hagstofunnar. Aukin verði fræðsla um jafnrétti á vinnumarkaði með aðgengilegu kynningar- og fræðsluefni fyrir launafólk og fyrirtæki með það að markmiði að styðja starf fyrirtækja og starfsmanna í jafnréttismálum. Slíkt efni verði jafnframt aðgengilegt fyrir alla sem annast mannauðsstjórn og ráðgjöf.“

Enn fremur er að finna framkvæmdaáætlun í bókuninni þar sem fram kemur að menn telji að þessu þurfi að koma í framkvæmd eins fljótt og auðið er og skuli vera tilbúið fyrir árslok 2009. Það er líka stefnt að því að kynningar- og fræðsluefni verði tilbúið fyrir árslok 2008. Í þessu efni finnst mér ástæða til að taka fram að þetta fellur að mörgu leyti vel við stefnumótun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum. Ég vil gjarnan draga það fram að ríkisstjórnin hefur sett sér háleit markmið í jafnréttismálum á kjörtímabilinu, m.a. í því að jafna launamun kvenna og karla.

Á vegum félagsmálaráðherra og fjármálaráðherra starfa nefndir sem hafa það verkefni sérstaklega að huga að jöfnun óútskýranlegs launamunar kynjanna. Nefndirnar eru þrjár en tvær hafa þessu sérstaka hlutverki að gegna, önnur nefndin hefur það verkefni að fjalla um almenna vinnumarkaðinn og hin nefndin hefur það verkefni að skoða opinbera markaðinn. Þar kemur hreinlega fram að þessi óútskýrði launamunur skuli helmingaður á kjörtímabilinu og enn fremur að leita skuli leiða og leggja fram áætlun um það hvernig bregðast megi sérstaklega við kvennastéttum og launamun þar.

Vegna þessara, að ég vil segja, mjög svo metnaðarfullu markmiða ríkisstjórnarinnar finnst mér sérstaklega gleðilegt að á því sé að myndast skilningur í þjóðfélaginu að allir þurfi að leggjast á eitt til að leysa úr þessum vanda. Við þekkjum það hér, þingheimur, að menn hafa kannski haft mismunandi skoðanir á því hvaða leiðir eru bestar og tiltækastar, en aðalatriðið er að markmið manna sé það sama. Þegar um er að ræða sambærileg störf, þegar um er að ræða sambærilega ábyrgð og ekkert skilur að nema kyn þá er ekki hægt að líða launamun. Maður veltir líka fyrir sér af hverju slíkur launamunur er til staðar og ég veit að engin einhlít svör eru við því. Ég er viss um að við höfum mörg ákveðna tilfinningu fyrir því að sumt af þessu liggi djúpt niðri og verði erfitt að leysa. En það skiptir miklu máli að maður finni þennan skýra vilja, frú forseti, frá stjórnvöldum til að bregðast við þessum vanda og að við viljum ekki að þjóðfélagið sé með þessum hætti.

Ég fæ ekki betur séð en að þessi bókun frá aðilum vinnumarkaðarins sé mjög skýr að þessu leyti, menn sjá að við verðum að gera einhverja bragarbót í þessum málum. Það geta ekki verið hagsmunir fyrirtækja í landinu að fá ekki það besta út úr starfsfólki sínu, og það gerist ekki ef einhver óánægja er til staðar eða ef menn halda að þeir fái ekki þá umbun sem sanngjörn er fyrir sömu störf á sama stað. Vandinn er auðvitað helst sá að finna út úr því hvað eru sambærileg störf, það er gömul saga og ný.

Ég hef að gamni mínu verið að velta þessu fyrir mér undanfarið og verið að spekúrlera í því hvaðan þessi tilfinning kemur. Af hverju lenda konur oft með lægri laun en karlar eftir ákveðinn tíma? Maður hefur það á tilfinningunni að þær byrji á svipuðum launum en verði svo einhvern veginn eftir.

Það væri fróðlegt fyrir þá sem eru að rannsaka jafnréttismál, og hér hefur verið fjallað um Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum og verkefni hennar — ég tek undir það sjónarmið hvað varðar Jafnréttisráð, ég vona að það þýði ekki að hún sé orðin bundnari í rannsóknum sínum. Að mörgu leyti hefði verið betra að rannsóknastofan hefði verið fyrir utan Jafnréttisráð en ég ætla svo sem ekki að leggja frekari dóm á það.

Það er í raun og veru óþolandi að við skulum þurfa að vera ræða þessi jafnréttismál, en við þurfum þess. Maður spyr sig: Hvar byrjar þetta? Þeir sem eru fremst í þessum fræðum ættu að velta því fyrir sér hvar munurinn byrjar. Borin var fram fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra frá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur, um bleikt og blátt, sem mér var nú reyndar ekkert að skapi — ég var ósammála þeirri hugmynd að kynjahlutverk fælust í bleika og bláa litnum. En það er samt fróðlegt að velta því fyrir sér hvað börn í barnaskóla segja þegar þau eru spurð að því hvað þau ætli að verða þegar þau séu orðin stór. Börnin eru alin upp á heimili þar sem móðirin er útivinnandi eins og faðirinn, maður heldur að maður sé að ala upp stelputöffara en svo vilja þær verða flugfreyjur. Það finnst okkur ómögulegt.

Það er því að mörgu að gá í þessu. En ég held að við leysum þessi mál ekki í einu vetfangi. Við gerum það með því að vera vakandi fyrir þessum hlutum og líta ekki á þetta sem óleysanlegt vandamál, alls ekki líta svo á. Að öðru leyti vil ég fagna því að frumvarpið fær brautargengi og að við sjáum fram á að það verði samþykkt innan tíðar. Ég vil óska hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra til hamingju með það og vona að það verði okkur til góðs.