135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[16:49]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins vegna þess sem kom fram undir lokin í máli hv. þingmanns að Jafnréttisráð væri fjölskipað stjórnvald. Ég er ekki viss um að rétt sé að taka þannig til orða. Mér sýnist 9. gr. vera þannig úr garði gerð að Jafnréttisráð sé til ráðgjafar og ég held að það geti ekki verið stjórnvald. Kannski misskil ég orðið „stjórnvald“ en mér finnst Jafnréttisráð bara vera ráðgjafaraðili en ekki stjórnvald, stjórnvald er einmitt Jafnréttisstofa.

Það má auðvitað fara fram og aftur yfir það hvernig mönnum sýnist skipan Jafnréttisráðs eigi að vera. Ég tel t.d. að rannsóknaraðili eigi ekki að vera í Jafnréttisráði, aðili sem hefur það hlutverk að afla upplýsinga á ekki að vera í aðstöðu þar sem á að lýsa pólitískum skoðunum eða viðhorfum, mér finnst hann ekki vera á réttum stað. En þetta var krafan og það var ákveðið að verða við henni og leita samkomulags og það er bara þannig að aðrir hafa aðra skoðun en ég í þessum efnum og ég get ekki haldið því fram að mín sé rétt og önnur röng. Þetta er bara viðfangsefnið í stjórnmálunum að þar þarf alltaf að vera meðalhóf og skynsemi í öllum hlutum og Frjálslyndi flokkurinn hefur svolítið reynt að sýna það í þinginu í vetur að hann er talsmaður meðalhófsins í mörgum ef ekki öllum málum.