135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[16:50]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hitt atriðið sem mig langaði til að hafa nokkur orð um í ræðu hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar, er 15. greinin og sú athugasemd sem hann gerði við orð mín þar. Ég sé ekki betur en textinn á bls. 24 í frumvarpinu, í athugasemdum við 15. gr., sé mjög skýr. Þar segir, með leyfi forseta:

„Þó er lagt til að tilnefningaraðila sé heimilt að víkja frá framangreindu skilyrði“ — þ.e. um að tilnefna karl og konu — „þegar hlutlægar ástæður leiða til þess að ekki er mögulegt að tilnefna bæði karl og konu. Dæmi um slíkt eru félagasamtök þar sem félagsmenn eru nær eingöngu af öðru kyninu, svo sem hjá Kvenfélagasambandi Íslands, Kvenréttindafélagi Íslands og Félagi ábyrgra feðra.

Þegar nær eingöngu er um að ræða annað kynið í viðkomandi félagi lítur frumvarpshöfundur svo á að það séu hlutlægar ástæður og þess vegna eru þessi þrjú félög eða félagasamtök nefnd í textanum um 15. gr. Ég lít svo á að hér sé undanþáguheimildin beinlínis hugsuð fyrir þá aðila sem þarna eru taldir upp.

Um hitt get ég svo verið sammála hv. þingmanni að auðvitað er það tímanna tákn að félag eins og Kvenfélagasamband Íslands eða Kvenréttindafélag Íslands eigi að geta verið opið fyrir karla. Ég hef svo sem enga sérstaka ástríðu fyrir því að opna það félag mikið fyrir karlmönnum, enda læt ég þeim sem starfa þar innan dyra eftir að taka ákvarðanir fyrir sitt félag. En mér finnst þetta afar ljóst af því hvernig textinn er settur hér upp.

Síðan örfá orð, hæstv. forseti, um hið fjölskipaða stjórnvald. Það er auðvitað rétt hjá hv. þingmanni að nær hefði verið að ég hefði orðað þetta svo að Jafnréttisstofa, sem vissulega er stjórnvaldið, hefði fjölskipaðan bakhjarl í ráðgjafarráðinu, Jafnréttisráði.