135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

403. mál
[16:53]
Hlusta

Flm. (Sturla Böðvarsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað, nr. 88/1995, með síðari breytingum.

Að flutningi frumvarpsins standa auk mín fulltrúar í forsætisnefnd, varaforsetar þingsins, aðrir en fulltrúi Vinstri grænna, þ.e. Þuríður Backman 2. varaforseti, en flokkur hennar átti ekki aðild að þeim breytingum á þingsköpum sem þetta mál er sprottið úr.

Eins og hv. alþingismenn muna var samhliða frumvarpi til laga um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis, sem lagt var fram á Alþingi á haustþingi, gert samkomulag á milli þingflokkanna sem að því stóðu um að bæta starfsaðstöðu alþingismanna, ekki síst stjórnarandstöðuþingmanna, með ýmsum ráðum. Samkomulag náðist m.a. um að formenn stjórnarandstöðuflokka, sem jafnframt eru alþingismenn, og þingmenn Norðvestur-, Norðaustur- og Suðurkjördæmis fái aðstoðarmenn sem vinni að tilteknum verkefnum í þágu viðkomandi kjördæmis vegna skyldustarfa þingmanna.

Ég tel löngu tímabært að formenn stjórnmálaflokka sem ekki eru jafnframt ráðherrar — það þýðir í reynd formenn stjórnarandstöðuflokkanna á Alþingi — fái aðstoðarmenn líkt og ráðherrar hafa haft um langan tíma eða allt frá 1970 er sett voru ný lög um Stjórnarráðið. Starf formanna flokkanna er ærið annasamt ekki bara á vettvangi innra starfs þeirra í flokkunum heldur fyrst og fremst í hinni almennu þjóðfélagsumræðu, bæði á Alþingi, í fjölmiðlum og á margvíslegum fundum og ráðstefnum. Ég tel að það sé réttmætt að þingið leggi þeim forustumönnum þess sem mest mæðir á þá aðstoð sem tök eru á og létti þannig undir.

Ég tel einnig að hér sé mikilvægt skref stigið með því að veita þeim þingmönnum sem kosnir eru í hinum víðfeðmu kjördæmum, Norðvesturkjördæmi, Norðausturkjördæmi og Suðurkjördæmi, rétt til þess að fá aðstoð til að sinna störfum sínum og skyldum í þeim kjördæmum. Ég held það sé nær samdóma álit allra þingmanna þessara kjördæma að stærð þeirra sé slík að það sé á mörkunum að þingmenn geti sinnt kjósendum, sveitarstjórnum, atvinnufyrirtækjum og félagasamtökum svo sem vera ber og sómi sé að. Með aðstoðarmönnum er verið að létta undir og auka tengslin við þá aðila í kjördæminu sem þingmaðurinn þarf að vera í sambandi við. Grundvallaratriðið er að aðstoðarmaður þingmannsins sé með fasta starfsstöð í kjördæminu og vinni þannig í grasrótinni eins og það er kallað.

Ég tel að með þessu frumvarpi séum við að stíga fyrstu skrefin inn á nýja braut í starfi alþingismanna og Alþingis. Hér er farið varlega, og kannski sparlega, af stað en við verðum síðan að sjá hvernig þetta fyrirkomulag reynist og laga það og bæta eftir því sem reynslan kennir okkur. Við útfærsluna höfum við haft úr ákveðnum fjárhagsramma að spila samkvæmt fjárlögum og tilhögun þessa kerfis byggist auðvitað mikið á því.

Forsætisnefnd afgreiddi nú í vikunni endanlega fyrir sitt leyti reglur um aðstoðarmenn alþingismanna í hinum stóru kjördæmum utan Reykjavíkursvæðisins og um aðstoðarmenn formanna stjórnarandstöðuflokkanna. Jafnframt lágu fyrir í nefndinni nær fullbúin drög að ráðningarsamningum og þar með rammi um starfskjör aðstoðarmannanna. Ef okkur tekst að afgreiða þetta frumvarp á fáum dögum ætti þetta fyrirkomulag að geta tekið gildi frá og með 1. mars nk.

Ég vil geta þess að um þessi efni hef ég átt allmikið samstarf við formenn þingflokkanna og haldið marga fundi með þeim um málið. Jafnframt hefur farið fram umræða um málið í forsætisnefnd og ég hef átt samtöl við formenn flokkanna á þeim tíma sem undirbúningur hefur staðið. En það er rétt og skylt að halda því til haga að upp hafa komið álitamál um einstök atriði í útfærslu þessa nýja fyrirkomulags sem þetta frumvarp mælir fyrir um. Í þeim efnum verður forseti og forsætisnefnd að marka reglur sem vinna verður eftir á grundvelli þeirra laga sem fyrir liggja og á grundvelli fjárlaga.

Í þeim reglum sem fyrir liggja um starfskjör og starfsaðstöðu aðstoðarmanna segir að aðstoðarmenn alþingismanna, sem jafnframt eru formenn stjórnmálaflokka, hafi sem föst laun, og sem heildarlaun fyrir starf sitt, þingfararkaup auk greiðslna á móti ferðakostnaði og símakostnaði. Þessir aðstoðarmenn munu hafa skrifstofu í húsakynnum Alþingis og fá alla almenna skrifstofuþjónustu eins og starfsmenn þingsins.

Aðstoðarmenn alþingismanna úr stóru kjördæmunum munu hins vegar hafa sem grunnviðmiðun launa sinna 75% af þingfararkaupi. Hver þingmanna úr þessum kjördæmum sem ekki hefur aðstoðarmann nú þegar, eins og ráðherrar eða formenn flokka, á rétt á að fá aðstoðarmann í þriðjungsstarfshlutfalli. Það þýðir að laun aðstoðarmannsins verða 25% af þingfararkaupi. Í reglum forsætisnefndar er gert ráð fyrir því að þingmenn geti, ef þeir kjósa svo, komið sér saman um aðstoðarmann og hækkar þá bæði starfs- og launahlutfall sem því nemur.

Aðstoðarmenn alþingismanna munu hafa, eins og áður sagði, aðstöðu í kjördæmunum og fá auk fastra launa greiðslu á móti kostnaði við ferðir, farsíma og annan rekstur. Útlagður kostnaður verður endurgreiddur samkvæmt framlögðum reikningum. Settar verða nánari vinnureglur um framkvæmd þessara greiðslna. Öll umsýsla verður að sjálfsögðu eins og um aðra hluti í höndum skrifstofu Alþingis og þess ágæta fólks sem þar starfar.

Í reglunum sem forsætisnefnd hefur afgreitt er fjallað um ráðningar aðstoðarmanna og hvernig staðið verður að þeim. Ráða má í störfin án auglýsingar, a.m.k. verður það ekki skylt. Skriflegir ráðningarsamningar verði gerðir en skrifstofa Alþingis áritar samninginn og sér um alla launaumsýslu. Óheimilt verður að ráða sem aðstoðarmann náið skyldmenni alþingismanns. Er þessi regla ekki síst sett með þá reynslu í huga sem fengist hefur erlendis af þessu kerfi aðstoðarmanna þingmanna. Að öðru leyti má segja um störf aðstoðarmanna að þingmaðurinn setur aðstoðarmanni fyrir verkefni og stjórnar starfi hans, fer með öðrum orðum með húsbóndavald yfir honum. Enginn annar aðili kemst þar á milli.

Skrifstofa Alþingis mun veita aðstoðarmönnum þingmanna svipaða þjónustu og þá sem alþingismenn fá, eftir því sem við á, þar á meðal frá upplýsinga- og rannsóknarþjónustu skrifstofunnar og jafnframt mun skrifstofan veita leiðbeiningar um tölvunotkun.

Eins og fram kemur í frumvarpsgreininni er lagt til að lög nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og reglur settar samkvæmt þeim gildi ekki um aðstoðarmenn alþingismanna, þeir séu með öðrum orðum ekki opinberir starfsmenn. Eðli þessara starfa er þannig að ekki getur talist eðlilegt að þeir teljist í þeim hópi og þannig fæst líka nauðsynlegt svigrúm fyrir alþingismanninn til þess að haga ráðningu aðstoðarmanns fyrst og fremst eftir sínum þörfum og sínum sjónarmiðum. Nauðsynlegt er jafnframt að 5. gr. laga nr. 139/2003, um tímabundna ráðningu starfsmanna, gildi ekki um aðstoðarmennina þannig að það ákvæði, að tímabundinn ráðningarsamningur megi almennt ekki vara lengur en tvö ár, eigi ekki við um ráðningu aðstoðarmanna alþingismanna.

Frumvarp þetta felur í sér almenna heimild til að ráða alþingismönnum aðstoðarmenn. Það sjónarmið liggur til grundvallar að til frambúðar verði réttur þingmanna í þessum efnum til staðar. Hér er hins vegar um mikla breytingu að tefla og við förum varlega af stað, eins og ég gat um fyrr, og höldum okkur innan þess fjárhagsramma sem til þessa er ætlaður. Verði breytingar á þessu fyrirkomulagi og fjárveitingar auknar má breyta þeim reglum sem forsætisnefnd hefur sett samkvæmt heimild í þessum lögum en ekki þarf þá sérstaka lagabreytingu verði það niðurstaða þingsins að leggja til meiri fjármuni.

Ég vil svo leggja áherslu á í lokin, hæstv. forseti, að það fyrirkomulag sem nú fer af stað sæti endurskoðun þegar reynsla er af því fengin þannig að við gætum þá sniðið af vankanta, ef þeir finnast, og lagað það svo að best henti störfum alþingismanna.

Hæstv. forseti. Þar sem frumvarp þetta hefur verið til umræðu á vettvangi þingmanna, bæði í hópi formanna þingflokka og innan forsætisnefndar, sé ég ekki ástæðu til að gera tillögu um að málið fari til nefndar milli umræðna.