135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

403. mál
[17:03]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi taka fram að ég var því sammála, og lýsti því í þingræðu þegar þingskapafrumvarpið svokallaða var til umræðu, að nauðsynlegt væri og sjálfsagt að formenn stjórnarandstöðuflokkanna ættu rétt á og hefðu möguleika til að ráða sér aðstoðarmann til að jafna þann aðstöðumun sem væri á milli stjórnarandstöðu og ríkisstjórnar. Því ber að fagna að tillögur skuli vera bornar fram um það atriði. Ég gerði hins vegar ítarlega grein fyrir því í umræðum á þeim tíma, í lok síðasta árs, að ég gæti ekki verið sammála því að þingmönnum væri mismunað, ég teldi að sömu reglur og sömu starfskjör ættu að gilda fyrir alla þingmenn. Það er grundvallaratriði í lýðræðissamfélagi.

Hæstv. forseti Alþingis á heiður skilinn fyrir það með hvaða hætti hann hefur komið að þessum málum. Hann hefur beitt sér fyrir ákveðnum lýðræðislegum umbótum sem snerta hagsmuni stjórnarandstöðu og verið með lýðræðisviðmiðanir sem að mörgu leyti eru ágætar og til þess fallnar að gera starf stjórnarandstöðu skilvirkara. Hann hefur beitt sér fyrir nauðsynlegum umbótum til að stjórnarandstaðan geti rækt skyldur sínar sem best og haft svipaða aðstöðu og ríkisstjórn á hverjum tíma. Það ber að þakka.

Í lok ræðu sinnar minntist hæstv. forseti á að spurningin snerist um að afgreiða frumvarpið, sníða hugsanlega af því vankantana og gera hlutina eins og best mundi henta. Um það snýst spurningin. Í sjálfu sér má velta því fyrir sér hvort rétt leið sé farin með því frumvarpi sem hér er lagt til. Verið er að tala um að bæta við III. kafla laganna um þingfararkaup og almennan alþingiskostnað, þar sem fjallað er um önnur starfskjör þingmanna, og er vísað til þess að alþingismanni sé heimilt að ráða sér aðstoðarmann eins og hér er lagt til. Í lögum um þingfararkaup Alþingis og þingfararkostnað er greint frá því með hvaða hætti og hvernig það skuli greitt en í frumvarpinu kemur svolítið annað inn í viðmiðunina. Í því er vísað til þess að ákveðin geðþóttaákvörðun forsætisnefndar Alþingis komi inn með viðmiðun um það fé sem veitt er á fjárlögum hvers árs. Það er fyrsta atriðið sem ég staldra við.

Í fyrsta lagi er hér um framsal lagasetningarvalds að ræða og það finnst mér óeðlilegt. Út frá lagatæknilegu sjónarmiði finnst mér þetta ákvæði vera með þeim hætti að gera verði á því breytingar þannig að það sé ákveðið nákvæmlega, með sama hætti og almennt er fjallað um málið í lögum um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað, hvaða reglur gilda um þennan kostnað — og þetta fellur undir kaflann um önnur starfskjör alþingismanna og því verður að gera nákvæmlega grein fyrir því vegna þess að við erum að setja lög sem eiga að standa lengur en eitt ár til tvö ár eða eitt kjörtímabil. Lög festast iðulega í sessi og við verðum að vanda til lagasmíða. Meðal annars þess vegna tel ég nauðsynlegt að þessu frumvarpi til laga verði að aflokinni 1. umr. vísað til allsherjarnefndar til umfjöllunar, til að málið verði kannað og gengið frá vandaðri lagasmíð um það.

Ég lýsti því áðan að mér finnst heimildarákvæðið, „alþingismanni er heimilt að ráða sér aðstoðarmann eftir nánari reglum sem forsætisnefnd Alþingis setur“, óeðlileg viðmiðun. Ákvæði eiga að vera um það hver kjör alþingismanns eru nákvæmlega og setja það í lög, það á ekki að vera valkvætt eða háð geðþóttaákvörðun forsætisnefndar eða því sem meiri hluti þings ákveður hverju sinni um fjárveitingar á fjárlögum. Lög standa iðulega lengur en eitt kjörtímabil, eins og ég sagði. Það kann vel að vera að forsetar komi að stjórn sem hugsa ekki með sama lýðræðislega hætti og sá hæstv. forseti Alþingis sem nú situr gerir. Þá vaknar spurning um það með hvaða hætti og hvernig farið verður með umrætt ákvæði og hvaða starfskjör þingmönnum verður þá boðið upp á. Það er m.a. þess vegna sem mér finnst þetta framsal lagasetningarvalds ekki koma til greina.

Ýmsar spurningar koma upp í hugann varðandi frumvarpið að öðru leyti. Hver er það sem í raun greiðir aðstoðarmanninum laun? Er það alþingismaðurinn sjálfur? Á hann að vera með sérgreint bókhald um þessi atriði vegna þess að honum er heimilt að ráða aðstoðarmann og vikið er að því að öðru leyti að starfskjör aðstoðarmannsins séu önnur og fari ekki eftir lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og ýmislegt í þeim dúr? Hver er hinn raunverulegi launagreiðandi aðstoðarmannsins? Er það þingmaðurinn sjálfur? Miðað við það orðalag að alþingismanni sé heimilt að ráða aðstoðarmann mætti ætla það. Þingmaðurinn yrði þá að gera bókhaldslega grein fyrir því. Hann er þá orðinn vinnuveitandi sem slíkur. Spurningin er: Hvernig verður uppgjöri háttað? Með það í huga m.a. velti ég því fyrir mér hvort ekki hefði verið heppilegra að hafa ákvæðið með öðrum hætti þannig að raunverulega væri farið í sama farveg og gildir að öðru leyti um lögin um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað og þeirri reglu fylgt sem þar er almennt mótuð um það að starfskjörin eru ákveðin í lögum — m.a. mætti koma fram með þá hugmynd að alþingismanni væri heimilt að ráða sér aðstoðarmann og fá þar af leiðandi ákveðnar greiðslur, t.d. einn þriðja af þingfararkaupi, til að standa straum af því. Sú spurning vaknar líka hvort binda ætti slíkt við að ráða aðstoðarmann, hvort það geti ekki verið hentugra fyrir vandað löggjafarstarf og fyrir hagsmuni þingmanna í stjórnarandstöðu að geta nýtt slíka fjármuni til ýmissa annarra hluta en vera með aðstoðarmann, t.d. í að greiða sérfræðiþjónustu og sérfræðiaðstoð.

Ég hefði því talið heppilegra að í fyrsta lagi yrði miðað við að þingmaður fengi þá, ef vilji er til þess að auka möguleika alþingismanna til að hafa hlutina í þessu formi, ákveðna viðbót sem hann gæti varið til ýmiss konar hluta, sérfræðiálits eða annars, og þyrfti þá að gera grein fyrir því, hugsanlega árlega eða með stuttu millibili, með hvaða hætti og hvernig fjármunum væri varið. Með þeim hætti kæmum við betur til móts við stjórnarandstöðu og stuðlum að vandaðra löggjafarstarfi og möguleikum stjórnarandstöðu og stjórnarandstöðuþingmanna til að fylgjast með og afla upplýsinga sem eru stjórnarþingmönnum almennt aðgengilegri. Þetta er spurningin um metnað fyrir hönd Alþingis, hvernig við lítum á Alþingi og hvert eigi að vera hlutverk þess.

Ég segi, virðulegi forseti: Alþingi er löggjafarstofnun. Það er starf okkar að setja þjóðinni vönduð lög og því þurfum við að hafa allar bestu tiltæku upplýsingar hverju sinni. Alþingismenn þurfa fyrst og fremst á þeirri aðstoð að halda sem auðveldar þeim það starf sitt að vera handhafar löggjafarvalds. Alþingismenn þurfa ekki sérstaklega á því að halda að vera með hlaupasnata einhvers staðar úti á landi sem pakkasendla eða frímerkjasleikjara — þið fyrirgefið orðbragðið. Menn verða að líta á starf sitt af bærilegri virðingu og aðalatriðið er að alþingismaður geti ævinlega leitað upplýsinga og fengið þær þannig að það auðveldi störf hans sem löggjafa og geri honum fært að vinna störf sín sem allra best.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því, og frumvarpið er orðað með þeim hætti, að alþingismanni sé heimilt að ráða sér aðstoðarmann. Í greinargerðinni er gerð grein fyrir því að það eigi ekki við um alþingismenn heldur eigi það við um ákveðinn hóp alþingismanna. Hvaða hópur er það? Það eru alþingismenn í þremur kjördæmum, Norðvestur-, Norðaustur- og Suðurkjördæmi. Þetta á ekki að taka til starfskjara alþingismanna í Reykjavíkurkjördæmunum eða í Suðvesturkjördæmi. Málið snýst um það, og um það er talað í greinargerð, að auðvelda eigi þingmönnum að vera í virku sambandi við kjósendur sína. Þá ber þess að geta að kjósendur í Suðvesturkjördæmi eru fleiri en í Norðvesturkjördæmi og Norðausturkjördæmi samanlagt. Ekki er hins vegar átt við að þingmenn Suðvesturkjördæmis eigi rétt á þessu. Þrátt fyrir orðalag í frumvarpinu, í drögum að lagatexta, eiga þingmenn Suðvesturkjördæmis ekki frekar en þingmenn Reykjavíkurkjördæmanna rétt á slíkum starfskjörum. Hvað veldur? Ætlum við virkilega að líta þannig á að alþingismenn séu fyrst og fremst kosnir fyrir ferkílómetra en ekki fólk? Ég lít þannig á að alþingismaður sé kosinn til að þjóna hagsmunum íslensku þjóðarinnar, ekki í sjálfu sér ákveðins kjördæmis heldur íslensku þjóðarinnar.

Við setjum þjóðinni lög og okkur ber skylda til þess. Á grundvelli stjórnarskrárinnar ber okkur skylda til að rækja skyldur okkar gagnvart öllum landsmönnum, ekki bara hluta þeirra. Það er þess vegna sem mér finnst óeðlilegt að greina og skilja þarna á milli réttinda alþingismanna. Ég tel það í raun andstætt lögum, andstætt stjórnarskránni hvað það varðar að þeir sem gegni sömu stöðum séu jafnir fyrir lögunum. Í 65. gr. í stjórnarskrá lýðveldisins segir að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda o.s.frv. Með því að setja fram löggjöf með þessum hætti er verið að mismuna þeim sem gegna sömu störfum og það er óásættanlegt.

Ég get ekki séð að ef frumvarpið færi í gegn óbreytt væri stætt á því að meina alþingismanni, sem krefðist þess að fá sömu starfskjör og aðrir sem fá aðstoðarmenn samkvæmt frumvarpinu, um það. Hann gæti þá að sjálfsögðu vísað til þess að hann ætti að hafa sömu starfskjör samkvæmt ákvæðum stjórnarskrár. Ef litið er til ákvæða stjórnarskrár um þingmenn, þingstörf, er hvergi gerður greinarmunur á þeim eftir kjördæmum og að sjálfsögðu eigum við ekki að falla í þann ramma að fara að gera greinarmun á þingmönnum eftir kjördæmum. Við eigum að heimila öllum að hafa sömu starfskjör. Síðan er það annað mál, virðulegi forseti, hvort eðlilegt sé að Alþingi Íslendinga skammti sjálfu sér starfskjör með þessum hætti.