135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

403. mál
[17:55]
Hlusta

Flm. (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil bara ítreka að það er engin ástæða til að tengja starfskjör aðstoðarmanna eða skapa tortryggni gagnvart starfsmönnum Alþingis á nokkurn háttað. Ég held að það sé ekki skynsamlegt að gera tilraun til þess.

Hvað varðar hins vegar þær vangaveltur hv. þm. Ögmundar Jónassonar um vilja vinstri grænna til að efla hið pólitíska starf á landsbyggðinni, þá efast ég ekki um það og það eru ýmsir sem leggja því lið en það fer hins vegar ekki á milli mála að aðstæður þingmanna í þessum þremur kjördæmum miðað við þá sem eru á höfuðborgarsvæðinu eru gerólíkar. Ég trúi ekki öðru en samskipti hv. þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs séu með þeim hætti að þess hafi orðið vart. Ég hlýt að velta því fyrir mér og ég trúi ekki öðru en hv. þingmenn svo sem eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson verði þess var þegar hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon ferðast um sitt víðfeðma kjördæmi og leggur nótt við dag til að vinna sem best að hagsmunum umbjóðenda sinna. Allt er þetta staðreynd og tilgangurinn með þessari lagasetningu er að leggja lóð á þær vogarskálar að bæta starfsaðstöðuna, koma upp starfsstöðvum fyrir þingmennina úti í kjördæmunum til að auðvelda þeim þetta mikilvæga verkefni.