135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

403. mál
[17:57]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Er hæstv. forseti Sturla Böðvarsson ekki forseti okkar allra, þingsins alls? Heldur hann að menn í þéttbýlinu, í Reykjavík og svæðunum hér leggi ekki nótt við dag, þeir sem eru samviskusamir við sín störf? Deilan snýst ekki um þetta. Deilan snýst um það á hvaða forsendum eigi að styrkja stjórnmálastarfið, hvort eigi að gera það á einstaklingsbundnum forsendum eða á félagslegum grunni. Um það snýst deilan. Það er það sem við erum að gagnrýna í málflutningi okkar eða ég er að gera.

Varðandi þau ummæli hæstv. forseta að hér sé verið að sá einhverjum fræjum tortryggni þegar talað er um kjaramálin þá vísa ég því til föðurhúsanna. Það er ég ekki að gera, aldeilis ekki. En ég er að segja hitt að okkur alþingismönnum ber skylda til að beina sjónum okkar að kjörum þess starfsfólks sem hér vinnur ekkert síður en þeirra sem fjallað er um í þessu frumvarpi. (Gripið fram í: Hvað áttu við með því?) Hvað á ég við með því? Bara nákvæmlega það sem ég segi. Skilur hv. þingmaður ekki íslensku? Ég er að tala um að okkur beri að beina sjónum að kjörum starfsmanna þingsins ekkert síður en þeirra sem hér er verið að kveða á um að verði ráðnir fyrir skattfé borgara. (KHG: Breytir frumvarpið …?) Ég leyfi mér að bara hafa þá skoðun þó að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson leyfi sér að hafa hér allt á hornum sér.